Í dag var annar innidagur. Stelpurnar voru vaktar klukkan níu eins og venjulega og við tók hefðbundin morgundagskrá. Á biblíulestrinum fjölluðum við um það að treysta Guði og stelpurnar fengu að heyra frásögnina af því þegar Jesús stillti storminn. Von mín er sú að þegar stelpurnar upplifa óveður í lífi sínu eftir að þær koma heim þá muni þær leita til Guðs til að finna ró og treysta á hann sem vin.

Eftir brennó í íþróttahúsinu (úrslitin verða ekki ljós fyrr en á morgun) var boðið upp á fiskibollur og kartöflur og fullt af grænmeti. Síðan hittist hópurinn uppi í stofu og haldin var skemmtileg hæfileikakeppni undir stjórn Telmu foringa í gervi appelsínuguls litar og Steinunnar foringja í gervi Crayola litakassa. Þetta er greinilega hæfileikaríkur hópur og atriðin í keppninni voru af ýmsum toga. Við fengum að heyra söng á þremur tungumálum, sjá dans- og fimleikaatriði, myndlistasýningu, gjörning og fallegan skúlptúr (órói úr trélitum og kökugöfflum). Þegar hæfileikakeppninni var að ljúka komum við auga á belju í appelsínugulum pollabuxum niðri í laut sem hafði greinilega stolið lúðrinum okkar úr eldhúsinu og blés í hann af öllum lífs og sálarkröftum. Stelpurnar hlupu allar út eins og fætur toguðu og eltu uppi kúnna út um allan skóg. Þegar hún loksins náðist kom í ljós að hún var bara hin allra vænsta og gaf öllum sleikipinna sem hún var með í maganum.

Eftir kaffitímann ákváðum við að breyta aðeins út af hefðbundinni eftirmiðdagsdagskrá. Stelpurnar eru það fáar að þær hafa nú þegar allar náð að vera með skemmtiatriði á einni kvöldvöku. Þar sem foringjarnir verða með skemmtiatriði veislukvöldvökunnar sem er á morgun er kvöldið í kvöld laust til að gera eitthvað öðruvísi og spennandi. Við ákváðum því að skipta hópnum í fjóra smærri hópa: sönghóp, skemmtihóp, skreytingahóp og veitingahóp. Fljótlega eftir kaffi hófu hóparnir undirbúnings skemmti- og kaffihúsakvölds. Matsalurinn var skreyttur, veitingahópurinn bjó til kókoskúlur ofan í liðið og söng- og skemmtihóparnir æfðu atriði fyrir kvöldið. Eftir hina daglegu pottaferð var svo komið að skemmtikvöldinu sjálfu og heppnaðist það rosalega vel. Starfsfólkið þjónaði til borðs undir ljúfri tónlist frá spilaranum í bland við skemmtiatriði barnanna. Í lok kvöldvökunnar hélt Telma foringi frábæra hugleiðingu um vináttu, traust og freistingar og tóku börnin virkan þátt í hugleiðingunni eins og meðfylgjandi myndir sýna vonandi. Skemmtikvöldið var haldið í matsalnum en hugleiðingin endaði upp í stofu. Í stofunni var búið að koma fyrir dýnum á gólfunum og við fengum svo sannarlega góðar viðtökur þegar við tilkynntum að til stæði að sýna teiknimyndina Pöddulíf á skjávarpanum og bjóða upp á popp með.

Við starfsfólkið erum sammála um að þetta hafi verið skemmtilegur og gefandi dagur með stelpunum. Dagurinn reyndi mikið á samvinnu ólíkra einstaklinga og voru margir litlir sigrar sem þurfti að vinna til að koma á fót þessu vel heppnaða og skemmtilega kvöldi. Bæði við og börnin lærðum mikið á þessum degi. Kvöldið var byrjað snemma og endaði því ekki of seint. Stelpurnar eru allar sofnaðar og dreymir nú líklegast um hinn geysispennandi veisludag sem rennur upp á morgun.

Myndir:

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634708154931/