Þá er síðasta heila deginum okkar hér í 7. flokki lokið. Dagurinn hefur verið nokkuð hefðbundinn. Á biblíulestri morgunsins fórum við yfir krossdauða Jesú og hlustuðu stelpurnar af mikilli athygli. Eftir biblíulesturinn fór svo fram síðasta íþróttakeppnin. Keppt var í armbeygjum og pokahlaupi. Eftir að hafa fengið sér ávaxtasúrmjólk og brauð fóru stelpurnar svo í langa ferð niður á svokallaðan “skeiðvöll” þar sem sumarbústaðaeigiendur í nágrenninu hafa komið fyrir leikvelli og fótboltavelli. Þar fóru stelpurnar ásamt foringjunum í skemmtilega leiki og nutu þess að vera saman í hlýju og þurru.

Í kaffinu var boðið upp á heitt kakó með nýbökuðu bollunum og rice krispies kökunum. Það var notalegt eftir alla útiveruna. Tíminn eftir kaffi fór í að ljúka brennókeppni flokksins og svo var sturtað og pottað og fléttað og puntað. Veislukvöldið var í vændum! Klukkan sjö var svo blásið til veislukvöldverðar (pizzur) í skreyttum sal, og að honum loknum skemmtu foringjarnir stelpunum með stórskemmtilegum og fagmannlegum uppfærslum á hinum ýmsu leikritum. Þar var mikið mikið hlegið. Í lok kvöldvökunnar hélt Salóme foringi áfram þar sem frá var horfið í fræðslu morgunsins og ræddi upprisuna við stelpurnar. Þær hlustuðu vel sem endranær.

Nú sofa allar stelpurnar en foringjarnir eru hvergi nærri sofnaðir, enda mikil vinna að föndra viðurkenningar og verðlaun fyrir þennan kraftmikla hóp!

Myndir:

http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634721403423/