Þá er að koma að lokum þessa flokks. Rútan kemur eftir tvo tima og stelpurnar smám saman að verða tilbúnar til brottfarar. Sumar þeirra eru nú þegar búnar að ganga frá dótinu sínu og setja það út á meðan aðrar eru enn að klára síðasta viðburð flokksins, ratleikinn.

Í morgun þegar við komum niður til að vekja stelpurnar voru einhverjar þeirra greinilega komnar í heimferðarhug og í mörgum herbergjum var pökkun hafin. Morguninn var þó með hefðbundnu sniði að öðru leyti. Úrslitin í hegðunarkeppninni skýrðust eftir síðustu morguntiltekt flokksins og lítur út fyrir að Hamraver hafi unnið þann slag. Á bibliulestri morgunsins fjölluðum við svo um Guð sem er þríeinn og um hlutverk heilags anda sem hjálpara, þess sem styrkir. Ég hvatti stelpurnar til að leyfa heilögum anda að fylla hjörtu sín og að „hanga með Jesú“. Maður fer oft að líkjast þeim sem maður „hangir með“ og hvað er betra en að reyna að líkjast Jesú og leyfa kærleika hans að stýra aðgerðum sínum og framkomu við aðra?

Eftir biblíulestur fengu sigurvegarar brennókeppninnar að keppa við foringjana og undirritaða í brennó (að sjálfsögðu unnu foringjarnir) og að þeim leik loknum tókum við einn brennóleik við allan hópinn – og unnum hann auðvitað líka.

Í hádegismat fengum við cornflakes-kjúkling og kartöflur og vakti það mjög mikla lukku. Þeir foreldrar sem þetta lesa geta verið vissir um að þessar stelpur koma vel nærðar heim enda hafa þær allar borðað mjög vel í flokknum. Eftir hádegi hefur svo verið í gangi ofannefndur ratleikur og á meðan hefur starfsfólkið nýtt tímann til frágangs og þrifa eins og kostur hefur verið á.

Það er lítið eftir; kaffi, lokastund með verðlaunaafhendingu og rútuferðin heim. Þessi flokkur hefur verið mikil blessun fyrir mig og ég hef notið samvistanna við bæði börnin og þetta frábæra starfsfólk sem ég var svo heppin að hafa mér við hlið. Hér hefur kærleikur, umburðarlyndi og gleði verið í fyrirrúmi sem hefur gert það að verkum að öllum hefur liðið eins og best verður á kosið. Framtakssemi foringjanna og hugmyndaauðgi, gæði eldhúsframleiðslunnar og ástúð og þolinmæði alls starfsfólksins í garð barnanna hefur gert starf mitt sem forstöðukona bæði auðveldara og ánægjulegra. Það er greinilegt að yfir þessum stað og því starfi sem hér fer fram hvílir blessun Guðs almáttugs. Það er erfitt að kveðja… eins og alltaf – en vonandi fáum við að sjá þessar skottur allar saman aftur og leiðbeina þeim frekar á göngu sinni með Guði.

Forstöðukona 7. flokks 2013, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, þakkar fyrir sig af öllu hjarta – og hlakkar til næsta skiptis.