Það voru kátar stelpur, 43 talsins, sem komu í Ölver í morgun. Greiðlega gekk að raða í herbergi og ljóst að vináttubönd halda á milli ára og stúlkurnar kynnast líka í rútunni á leið hingað upp eftir! Eftir grjónagraut og smurbrauð í morgunmat, var farið í skoðunarferð um landareignina og því næst komu þær sér fyrir í herbergjunum. Eftir kaffi var síðan íþróttakeppni, fyrsti hluti. Stúlkurnar í Hamraveri æfðu leikrit fyrir kvöldvökuna og frjáls tími. Eftir kvöldmat var kvöldvakan og eftirvæntingin var mikil. Sungið, leikið og horft, þær hlustuðu hugfangnar á hugleiðinguna, þakkað var fyrir góða veðrið og beðið fyrir góðri viku. Miklar pælingar og vangaveltur varðandi hvaða bænakonur þær fengju og eftir skemmtilega leit fóru þær allar sáttar inn á herbergi, háttaðar og með hreinar tennur. Það eru uppgefnar stúlkur sem njóta alls þess besta sem bænakonurnar þeirra hafa upp á að bjóða og ró er komin á í Ölverinu okkar yndislega. Takk fyrr gullmolana ykkar, kæru foreldrar og forráðafólk, okkar er svo sannarlega ánægjan að fá að eiga vikuna með þeim.

Með kærri kveðju úr stillunni, Ása Björk forstöðukona