Regnbogadagur að kveldi kominn.
Þær voru hissa stúlkurnar okkar þegar þær sáu að hafragrauturinn var bleikur! Þær höfðu verið vaktar með þeim fyrirmælum að klæðast eins mörgum litum og þeim frekast var unnt. Eftir fánahyllingu og Biblíulestur þar sem skoðaðir voru þeir litir sem tjá tilfinningar okkar og hvernig þeir tengjast Kristi og trúnni, hófst hin eiginlega brennókeppni. Það var einnig einstaklega skemmtilegt að fylgjast með stúlkunum borða blátt spaghettíið með hefðbundnu hakkinu, bæta rauðri tómatsósunni við og finnast allt dásmalega gott!
Eftir hádegi var síðan gengið niður að ánni í þessu dýrindis glampandi sólskini. Léttklæddar með sólarvörnina að vopni, busluðu þær og sumar fóru á bólakaf í ánni. Drekkutímann tókum við niðri við á og upp úr skálunum komu grænir oggulir kanelsnúðar sem pössuðu sérlega vel við appelsínudjúsinn. Allur regnboginn ar mættur í mat, hugleiðingum, klæðnaði og leik.
Íþróttakeppnin samanstóð af þriggja-staða-hlaupi og sippi. Heiti potturinn var vinsæll, en þær sem ekki fóru í pottinn, fóru samt í sturtu. Vatnið í pottinum var sérlega hlýtt í allri sólinni 🙂
Marglita skyrið vakti mikla lukku og einnig flöskuleitin í skóginum eftir mat. Kvöldvakan var skemmtileg, að voru stúlkurnar í Hlíðaveri með lífleg og skemmtileg atriði. Kvöldhressingin er alltaf vinsæl og þegar allar voru tilbúnar fyrir svefninn og bænakonur sinntu þeim og nú er komin ró um allt húsið.
Við þökkum góðum Guði fyrir þennan sérlega fallega dag og dýrmætar stúlkur sem okkur hafa verið faldar.
Með kærri Ölverskveðju úr veðurblíðunni, Ása Björk