Sæludagur í Ölverinu okkar góða!
Það voru hressar stelpuskottur sem þustu fram í matsal við fyrsta flaut. Sólin var þegar farin að skína og fánahyllingin var hin ánægjulegasta. Allar tóku vel til í herbergjum sínum og fengu fullt hús í hegðunarkeppninni. Í Biblíulestrinum héldum við áfram að læra að fletta upp í Biblíunni og skoðuðum aðallega Davíðssálma, bæði 119:105 og 8:4nn. Úr síðari textanum sungum við lagið: ,,Er ég horf’ á himininn, handa þinna verk“ og ræddum hvernig margir sálmar og lög eru tekin nánast beint úr Heilagri ritningu, þ.e. Biblíunni. Við ræddum Biblíuna sem safn ólíkra bóka og munum halda áfram með þá umræðu á morgun. Náungakærleikurinn er einnig mjög ofarlega í huga stúlknanna og gefur kærkomið tækifæri til umræðna.
Eftir vinsæla hamborgaramáltíð, var farið í göngu inn með fjallinu okkar; Blákolli, og ekki spillti dásamlegt veðrið fyrir. Sólaráburður er orðinn ein af daglegum nauðsynjum hér í Ölveri og förum við ekkert nema vel byrgar. Heiti potturinn var kærkomin skemmtun og margar stúlkurnar voru einnig í leikjum um alla landareignina. Æfð voru leikrit fyrir kvöldvöku og loks var heimilisleg súpan borðuð. Eftir skemmtilega og fjöruga kvöldvökuna fengum við ávexti og það var þá sem nokkuð óvænt gerðist… foringjarnir auk fyrrum foringja sem voru í heimsókn, fóru að banka á gluggana og allt brast í hermannaleik sem stóð yfir í um klukkustund. Það var mikið fjör upp um allt landið og margar stelpurnar álitu þetta hápunkt dagsins!
Hér er ótrúlegt sólarlag og ró komin á eftir viðburðaríkan dag.
Kærleikskveðjur, Ása Björk forstöðukona.