Stúlkurnar sváfu vel eftir að vera sungnar í svefn í gærkvöldi. Vakið var með jólasöng og gerðu stelpurnar sér fljótt grein fyrir að eitthvað undarlegt var i gangi. Þegar þær svo sáu okkur starfsfólkið í sundfötum yfir fötum á röngunni og í hinum undarlegustu samsetningum, áttuðu sumar sig á að um rugludag var að ræða. Það sannaðist þegar fyrst var borðaður kvöldmatur; súrmjólk með ávöxtum og bollur með áleggi. Eftir að fáninn hafði verið tekinn niður, var íþróttakeppni þar sem keppt var í jötunfötu. Sumar stúlknanna voru mjög úthaldsgóðar. Í Biblíulestrinum léku þær Lúkasaruðspjall 8:22-25 og við ræddum gildi þess að biðja um það sem við viljum og teljum rétt í stað þess að missa kjark og von. Því næst báðum við um að þokunni létti og að við fengjum sól í dag og voru sumar hissa þegar þær litu út um glugga og sáu að þokunni hafði létt á meðan við báðum! Það passaði einnig að við fengum þetta líka fína sólskin í eftirmiðdaginn.
Eftir hádegismatinn fengu skotturnar tíma til að æfa sig fyrir hæfileikakeppnina sem blásið var til um hálf þrjú. Fengum við óvænta heimsókn þriggja trúða sem tóku að sér að vera kynnar og var mikið hlegið að framlagi þeirra! Hinir ýmsu hæfileikar stúlknanna fengu sín notið og erfitt verður að velja á milli – ekki síst þar sem mörg frumsamin lög voru sungin, hvert öðru betra.
Að ,,morgunverði“ loknum var síðan brennókeppnin á bandvitlausum tíma eins og flest annað, en því næst var farið úr ruglufötunum og í sundfötin, því búið var að útbúa langa vatnsrennibraut í brekkunni með byggingaplasti. Margar salíbunurnar voru farnar og mikið hlegið – alltaf tók mjúk grasbrekkan við og að lokum enduðum við allar í heita pottinum. Fyrir áeggjan stúlknanna dembdum við, ég og nokkrir foringjar, okkur í pottinn í alklæðnaði!
Aðeins var ,,drekkutíminn“ eftir og kvöldvakan. Eftir að allar voru klárar í nóttina, smelltum við skemmtilegri teiknimynd í tækið og að sjálfsögðu var poppið á sínum stað. Bænakonur eru komnar í herbergin með stúlkunum. Fagurt sólarlagið gefur loforð um fallegan dag að morgni.

Enn einn dásemdardagurinn að kveldi kominn og við þökkum góðum Guði fyrir allar hans góðu gjafir í lífinu. Ása Björk forstöðukona.