Lokadagur í Ölveri í faðmi fjalla
Þessi flokkur hefur liðið ótrúlega hratt og vel. Stelpurnar hafa svo sannarlega skemmt sér vel og það höfum við starfsstúlkurnar líka gert! Veðrið hefur verið með eindæmum gott og mikið notað af sólarvörn þessa daga.
Þrátt fyrir sólarleysi í dag, erum við kátar og verður e.t.v. meira úr verki en ella. Tiltekt hefur gengið vel og allar töskur skilað sér út á bílaplan áður en rútan kemur. Biblíulesturinn var með örlítið hátíðlegra sniði, meira í formi messu, en eftir hana var úrslitakeppnin í brennó og að henni lokinni kepptu stelpurnar við foringjana – það finnst þeim ekki leiðinlegt! Eftir dýrindis salsa-kjúkling var farið í ratleik um allt svæðið. Spurningarnar voru mis erfiðar og þurftu þær að hafa nokkuð fyrir að ljúka leiknum.
Eftir kaffi var lokasamveran, þar sem verðlaunaafhending fyrir alla liði flokksins fór fram og að lokum var Ölversútgáfa Júróvissjón lagsins að sjálfsögðu sungin af lífi og sál!
Engin okkar hefur grennst í þetta skiptið með allan þennan fína mat og bakkelsi.
Fyrir hönd frábærs starfshóps þakka ég kærlega fyrir lánið á þessum skemmtilegu stúlkum og við hlökkum til að hitta þær aftur að ári. Kær kveðja, Ása Björk forstöðukona.