Það var mikið um dýrðir á þessum sólríka veisludegi í Ölveri. Eftir morgunverð var fánahylling, þá tiltekt í herbergjum og stjörnugjöf. Í Biblíulestrinum gengum við í gegnum líf Jesú og veltum ýmsu fyrir okkur, m.a. Faðir vorinu og bænum yfirleitt. Umræðan snerist í það að muna að fagna hverjum degi sem Drottinn gefur okkur og að lifa í sátt við fólk og umhverfi, því við vitum ekki hve lengi við höfum fólk hjá okkur – vegna flutninga eða annarra atburða í lífinu. Stelpurnar eru orðnar skotfljótar að fletta upp í Biblíunni. Lokakeppnin í Brennó fór fram og hart var barist.
Eftir kakósúpu-hádegismat var gengið niður að á í þessu líka glampandi sólskini, minna var buslað en á þriðjudag, en meira flatmagað í sólinni. Það hreinlega sást ekki ský á himni. Eftir hressilega gönguna aftur heim í Ölver, voru bollurnar og gulrótarkakan kærkomin, en því næst var farið í heita pottinn, allar í sturtu og hárgreiðsla. Mjög margar stúlknanna fengu fléttur í hárið. Þá var komið að veislukvöldverðinum. Búið var að endurraða í matsalnum og skreyta hann. Var hreinlega veitingahúsastemning og heimagerðar pizzur voru bornar á borð ásamt gosi fyrir þær sem það vildu. Frjálsa tímann fram að kvöldvöku nýttu stelpurnar úti við að mestu, sumar í brennó í íþróttahúsinu, aðrar á leikvellinum og enn aðrar á stultum í lautinni.
Á kvöldvökunni fengu þær að velja þau lög sem við sungum og síðan komu foringjarnir með leikrit – hvert öðru fyndnara! Sprell og gaman jók á fjörið í stúlkunum, en eftir ávaxtabitann fórum við niður á möl og hver stúlka grillaði sér sykurpúða áður en þær gerðu sig klárar fyrir svefninn. Stundin með bænakonum var sérlega dýrmæt þetta kvöldi, því stúlkurnar fengu bænamiða frá sinni bænakonu með sérstökum skilaboðum og ritningarstað. Ró komst á um síðir og þá tók við mikil föndurvinna foringja vegna verðlaunaafhendingar lokadgsins. Foringjar hafa verið óþreytandi að finna upp á skemmtilegum leikjum og sprelli, kann ég þeim mínar bestu þakkir!
Fyrir þau sem eru að sækja gullmolana sína, koma rúturnar á Holtaveginn kukkan 6 á sunnudag.
Ykkar í Kristi, Ása Björk forstöðukona.