Já, þær voru svo sannarlega litlar margar hverjar skotturnar sem komu með rútunni upp í Ölver í dag. Litlar, en greinilega mjög duglegar og sjálfstæðar og mikið til í slaginn! Ölver tók á móti okkur með dásemdar sólskini og skartaði sínu allra fegursta.

Við byrjuðum á að skipta stelpunum í herbergi. Þær eru ekki mjög margar í þetta skipti, sem er ágætt þegar þær eru svona litlar, og því notum við bara fjögur herbergi af sex. Stelpurnar eru 24 talsins og við starfsfólkið teljum níu (forstöðukona, fjórir foringjar, ráðskona, bakari og tveir aðstoðarforingjar) – að auki eru á staðnum tvö börn starfsmanna og ein hörkudugleg barnfóstra til að sinna þeim.Við gættum þess vel og vandlega að allar vinkonur og systur fengju að vera saman í herbergi.

Eftir að stelpurnar höfðu fengið aðstoð við að koma sér fyrir í herbergjum sínum, búa um og finna stað fyrir farangurinn sinn var boðið upp á fyrstu máltíðina úr frábæra eldhúsinu okkar, skyr og smurt brauð. Við ákváðum að skipta hópnum á fjögur lítil borð og borðunum á starfsfólkið þannig að auðveldara yrði að fylgjast með því að þessar litlu títlur væru duglegar að borða og fengju alla þá þjónustu sem þær þyrftu.

Eftir hádegismatinn var farið með hópinn í göngutúr um svæðið. Þær fengu að sjá girðinguna sem má ekki klifra yfir, netið okkar (við viljum meina að það sé heimsins stærsta hengirúm), bátinn og aparóluna og fótboltavöllinn og allt hitt sem er svo skemmtilegt í Ölveri. Að þessum göngutúr loknum var farið í skemmtilega útileiki í góða veðrinu.

Eftir gómsæta jógúrtköku og nýbakaðar bollur skelltu stelpurnar sér í brennókennslu í íþróttahúsinu, enda um að gera að undirbúa hópinn fyrir hina ómissandi og æsispennandi brennókeppni sem hefst á morgun. Eftir brennókennsluna hófst íþróttakeppni flokksins (greinar dagsins voru köngulóarhlaup og boltahopp) og svo skelltu stelpurnar sér allar í heita pottinn smá stund. Helmingur þeirra (tvö herbergi) fékk svo tíma til að undirbúa kvöldvöku kvöldsins með aðstoð foringja á meðan hinn helmingurinn kláraði pottatímann sinn.

Eftir steiktan fisk og kartöflur sem stelpurnar borðuðu mjög vel af (líka þær sem sögðust ekki borða fisk) og mikið mikið grænmeti var keyrð í gang kvöldvaka a la Ölver. Kvöldvakan í kvöld varð reyndar að vera aðeins í styttri kantinum þar sem við þurftum að skilja eftir soldinn tíma fyrir “nætur”sprellið. Það er nefninlega þannig að það er enginn flokkur í Ölveri án náttfatapartýs. Því þótti alveg ómögulegt, þó þessi flokkur sé stuttur og stelpurnar litlar, að þær færu heim án þess að læra listina að vera í náttfatapartýi. Á meðan ég lauk við kvöldvökuna með börnunum, gaf þeim ávexti og hjálpaði þeim að gera sig tilbúnar fyrir svefninn með hjálp eldhússstarfsfólksins týndust bænakonurnar! Þegar okkur var farið að lengja eftir þeim sendi ég stelpurnar (á náttfötunum í góða veðrinu) út í skóg að leita að þeim. Eins og sjá má af myndunum fundu þær engar bænakonur, en þær fundu kýr og grís, jólatré og kind, trúð og appelsínugulan crayola lit. Litlu krúttin voru alveg steinhissa á þessu uppátæki bænakonanna að fela sig bara í búningum í stað þess að koma og lesa fyrir þær og koma þeim í ró inn á herbergjum. Þær urðu því ekki minna hissa þegar, í stað þess að senda þær í rúmið eftir þetta, þeim var sagt að fara upp á sal aftur af því þar skyldi hefjast náttfatapartý!!!! Dýradans, annardans, rigningadans, fugladans, töfrabröð, poppkorn og sögustund er það sem tók við. Alsælar skriðu stelpurnar svo upp í rúm um hálf ellefu leytið – uppgefnar en fullar tilhlökkunar fyrir morgundeginum.

Ég er líka full tilhlökkunar. Þetta er hress og skemmtilegur hópur. Þær eru vissulega margar hverjar litlar og þurfa svolitla aðstoð og þjónustu en hópurinn er passlega stór til að okkar góða, umburðarlynda og kærleiksríka starfsfólk geti veitt þeim það sem þær þurfa á að halda. Veðurspáin er góð, andinn hjá starfsfólkinu góður og mikil gleði í húsinu. Þetta verða góðir dagar í Ölveri.

Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, forstöðukona.

Myndir: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634849092335/