Þá er þessi dagur að kveldi kominn og ró komin í húsið. Mikið hefur þetta nú verið skemmtilegur dagur með þessum dýrmætu stelpum sem hér eru. Hér má segja að ævintýrin hafi verið að gerast!
Morguninn var hefðbundinn að þessu sinni. Við fengum að vekja stelpurnar með fallegum söng og eftir morgunmatinn var tiltekt eins og venjulega og svo biblíulestur. Á biblíulestrinum heyrðu stelpurnar söguna um þegar Jesús stillti storminn og lærðu þannig bæði um mátt hans og um hversu vel við getum treyst Jesú þegar við upplifum óróleika og “storm” í lífi okkar.
Eftir biblíulestur var komið að brennókeppninni skemmtilegu og svo fengum við ofsa góðan grjónagraut og gómsætt pítubrauð (sem stelpunum fannst bara “alveg eins og subway”) í matinn. Dagskráin eftir matinn var “Ævintýragangur Ölvers” sem hentaði mjög vel þar sem rokið bauð ekki endilega upp á mikla útiveru.
Ævintýragangur Ölvers fór þannig fram að stelpunum var safnað saman í matsalnum. Þar var búið að koma fyrir hinum ýmsu listastöðvum (perlur, litir, vatnslitamálning, teikniblöð, Andresblöð o.fl.) og nokkrir starfsmenn komu sér fyrir þar með gítar og héldu uppi stuðinu á meðan stelpurnar biðu eftir að röðin kæmi að þeim í leiknum.
Síðan kom Tómas tómatur á svæðið og tók með sér fyrsta herbergið í ævintýragönguna miklu. Fyrsta stopp var í Skógarveri þar sem hrikaleg norn tók á móti stelpunum í myrku herbergi. Hún ver með ógeðsseyði í potti úr köngulóarlöppum og fluguvængjum og einhverju álíka. Sú stúlka sem var svo hugrökk að smakka á drykknum varð fyrir eitrun og hópurinn þurfti að vinna saman við að koma henni á næstu stöð til að fá lækningu. Á næstu stöð, í Hamraveri, hittu stelpurnar fyrir Garðabrúðu sem læknaði svo viðkomandi með hárinu sínu. Til þess fékk hún aðstoð stelpnanna sem sungu með henni lækningarlagið úr Disneymyndinni skemmtilegu sem þær allar þekkja. Þá var förinni heitið í Lindarver. Þar voru jólin! Jólaskreytt herbergið tók á móti þeim með jólatónlist á fullu og foringja í jólatrjábúningi. Þegar búið var að dansa í kringum jólatréð og syngja jólalög fengu stelpurnar að sjálfsögðu jólapakka. Næst var þá farið í Fjallaver þar sem Þyrnirós lá sofandi. Hún vaknaði ekki fyrr en stelpurnar höfðu fundið rétta lagið til að vekja hana og sungið það til enda. Lagið var “Hún Þyrnirós var besta barn.” Lokastöðin var uppi í sal. Þar sat fallega blár strumpur og tók á móti herbergjunum og bauð þeim í strumpadans. Strumpamyndin var svo látin ganga á meðan stelpurnar biðu eftir að allar væru búnar með gönguna. Síðasta ævintýrið hófst þegar allar voru komnar á strumpastöðina. Þá kom Sr. Ása Björk sem hefur verið í heimsókn hjá okkur í dag inn í salinn og sagðist gruna Dúdda trúð um að hafa stolið sleikipinnunum sem hún ætlaði að gefa stelpunum. Dúddi fannst með sleikjópoka í skóginum. Hann hafði víst haldið fyrir misskilning að hann ætti að eiga sleikipinnana einn. Allir fengu sleikjó og svo var haldið inn í kaffi. Það er erfitt að lýsa svona leik með orðum en vonandi tala myndirnar sínu máli – og stúlkurnar þegar þær koma heim.
Eftir kaffi kepptu allar stelpurnar í tveimur íþróttagreinum (broskeppni og stígvélaspark) og svo voru allir sturtaðir, puntaðir og greiddir. Pizzuveislan hófst stundvíslega klukkan 18:30 og var stórkostlega gaman að sjá allar litlu skotturnar fínar og sætar við veisluborðin í skreyttum matsalnum. Eftir matinn tók við löng og skemmtileg kvöldvaka í boði foringjanna og var boðið upp á ís yfir skemmtiatriðunum sem voru hvert öðru fyndnara. Í lok kvöldvökunnar sýndi Thelma foringi stutta teiknimynd þar sem sýnd er dæmisaga Jesú um góða hirðinn og sagði svo stelpunum frá því hvernig Drottinn er okkar hirðir og að við séum allar jafn dýrmætar í hans augum.
Stelpurnar fóru í háttinn dauðþreyttar eftir langan og skemmtilegan ævintýradag. Framundan er síðasti dagurinn okkar, pökkun og heimferð. Þessi flokkur hefur verið fljótur að líða enda verkefnin verið næg og áskoranirnar ýmsar sem fylgja því að vera með hóp af stúlkum sem þurfa svona mikillar umönnunar og leiðsagnar við. Flokkurinn er líka styttri en venjulegir flokkar og helsta áskorun mín sem forstöðukonu kannski að velja úr hvað úr hinum hefðbundnu flokkum á að leyfa þessum stelpum að upplifa. Dagskráin verður því þétt enda svo margt skemmtilegt í Ölveri sem sorglegt væri að láta þær vera án. Á morgun er því áætluð hárgreiðslu-/hæfileikakeppni fyrir heimför og svo auðvitað foringjabrennó (sem foringjar munu vinna eins og venjulega) að ógleymdum biblíulestrinum sem mun fjalla um ávexti andans og hvernig við getum reynt í öllu okkar lífi að líkja eftir Jesú.
Það verður líklegast lítið um fréttaflutning á morgun enda dagurinn þéttur eins og sjá má hér að ofan. Ég vonast þó til að geta sett myndir inn áður en við höldum heim í lok dags.
Enn á ný þakkar þessi forstöðukona, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, fyrir frábært tækifæri til að njóta samvista við bæði börnin og hið yndislega starfsfólk þessa staðar sem sinnir starfi sínu af svo miklum heilindum og hugsjón. Ég lít á mig sem mjög heppna að hafa fengið að njóta þessara daga hér í Ölveri í sumar og er strax farin að hlakka til næsta sumars. Það er ekkert eins ljúft og að eiga góða daga hinu undurfagra og blessaða Ölveri. Það er bara þannig. Kalt mat! 🙂
Myndir: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157634887227876/