Við höfum átt yndislegan dag hér í Ölveri í dag. Stelpurnar sváfu lengi enda var mikið fjör í náttfatapartýinu í gærkvöldi og stíf dagskrá frá morgni til kvölds þennan daginn.

Dagurinn var hefðbuninn og hófst með biblíulestri og brennó áður en við fengum okkur grjónagraut í hádegismat. Eftir mat var svo blásið til hárgreiðslukeppni og sýndu stelpurnar snilldartakta þar og var eins og færustu hárgreiðslumeistarar væru að störfum. Eftir kaffi fóru svo allir í hoppukastalann og pottinn. Einnig var föndur í boði og voru stelpurnar að útbúa veggmyndir, vatnslita, í skartgripagerð, steinamálun og öllu mögulegu.

Veðrið hefur svo verið ágætt, við fögnum því að ekki rigni á okkur og erum duglegar að leika okkur úti. Í kvöldmat var svo indverskt þema, matsalurinn var skreyttur sem og börn og starfsfólk. Reiddur var fram indverskur kjúklingaréttur með naan brauði, hrísgrjónum og kartöflum og indversk tónlist var spiluð. Eftir mat fórum við í bolina okkar sem við gerðum í gær og lærðum og dönsuðum indverskan dans. Daginn enduðum við svo á kvöldvöku þar sem Skógarver og Hlíðarver sáu um atriðin. Það voru því þreyttar og sælar stelpur sem lögðust á koddann í kvöld.

Þið getið verið stoltir foreldrar því þessar stelpur eru sannkallaðir gleðigjafar, ofsalega skemmtilegar, sjálfstæðar og jákvæðar. Það er barasta ekkert vesen og afskaplega lítil heimþrá.

Við látum vita af okkur aftur á morgun.

Kveðja Petra forstöðukona

P.s. Myndir af fyrstu 2 dögunum eru á leið inn 🙂