Fyrsta verk þegar komið var upp í Ölver var að raða niður á herbergi, síðan var farið út að ná í farangurinn. Það mátti ekki tæpara standa og um leið og síðustu töskurnar voru að koma í hús kom hellidemba. Þegar flestar voru búnar að koma sér fyrir var komið að hádegismat, súpu og brauð. Ekki borðuðu þær mikið en eflaust hefur sælgæti og spenningur spilað inn í. Eftir kaffi var farið út í íþróttahús og kenndar reglurnar í brennó. Eftir það var kaffitími, brauðbollur og súkkulaðikaka. Þá var komð að hárgreiðslukeppni þar sem listaverkin urðu til. Fjallaver og Hamraver sáu um leiki og leikrit á kvöldvökunni svo þær fengu tíma til að æfa sig fyrir kvöldmat. Í kvöldmatinn voru fiskibollur og hrísgrjón. Eftir kvöldmat var farið á kvöldvöku þar sem stelpurnar skemmtu sér vel og voru duglegar að syngja. Að lokinni kvöldvöku fengu þær sem vildu ávöxt áður en haldið var í háttinn, hvert og eitt herbergi fékk sína bænakonu sem las fyrir þær og spjallaði við þær og að lokum bað bænirnar með þeim. Ró var komin á fljótlega eftir miðnætti.

bestu kveðjur frá stelpunum í Ölveri