Miðvikudagurinn 2. júlí

Í dag var vakið kl 9 eins og vanalega en nú þurfti að vekja flestar, ekki skrítið eftir annasaman dag í gær og mikið stuð í gærkveldi. Morgunmatur var á sínum stað og svo var fánahylling. Eftir biblíulestur, brennó og hádegismat, sem í dag var steiktur fiskur, var farið í göngutúr að steininum í fjallinu, ágætt að komast aðeins út og hreyfa sig. Veðrið var bara ágætt aðeins vindur en við vorum lausar við rigninguna. Þegar heim var komið voru allar glorhungraðar og tilbúnar að fá hressingu. Síðan var komið að hæfileikakeppni þar sem þær sem vildu, sýndu hvað í þeim bjó, sumar sungu, aðrar dönsuðu eða sýndu hvað þær voru liðugar, hárgreiðslusýning og tónlistaratriði. Lindarver og Fuglaver fóru eftir keppnina að æfa leiki og leikrit fyrir kvöldvökuna. Í kvöldmat voru hamborgarar og síðan var haldið á kvöldvöku, stelpurnar eru fljótar að læra lögin sem við syngjum og taka fullan þátt í söngnum. Eflaust eiga einhverjar eftir að syngja þau fyrir ykkur þegar heim kemur.

Bestu kveðjur frá hressum og skemmtilegum stelpum í Ölveri