Dagurinn í Ölveri hófst með morgunverði þar sem boðið var upp á hafragraut, morgunkorn og súrmjólk. Eftir morgunverðinn tóku allar stúlkurnar til í sínum herbergjum til að vinna inn stig fyrir hegðunarkeppnina. Kl. 10:30 var síðan blásið á Biblíulestur þar sem stelpurnar fengu að heyra um þríeinan-Guð og eilífðina. Eftir Biblíulestur var svo farið beint út í brennó. Brennóliðin heita núna eftir nöfnum persónanna úr kvikmyndinni Frozen.

Í hádegismatinn var steiktur fiskur, kartöflur og grænmeti. Eftir hádegismat var farið niður í á þar sem stúlkurnar fengu að leika sér í eða við ánna. Eftir vatnssullið var boðið upp á bollur, bananabrauð og jógúrtköku í kaffinu. Því næst tók við íþróttakeppni og svo skelltu flestar sér í heita pottinn.

Í kvöldmat var svo ávaxtasúrmjólk og heitt brauð. Eftir kvöldmat var kvöldvaka þar sem stúlkurnar í Lindarveri sáu um skemmtiatriði. Kvöldvakan endaði á óvæntan hátt, en þá hófst svokallaður hermannaleikur. Eftir mikið hlaup og fjör úti í kjarrinu beið okkar dýrindis kakó og kaka þegar við komum inn.

Hlökkum til hvaða ævintýri bíða okkar á morgun.

Með kærri kveðju og þökk fyrir yndislegar stúlkur,

Ása Björk og Þóra Björg