Nú fer frábærum veisludegi senn að ljúka. Dagurinn er búinn að vera einstaklega skemmtilegur og viðburðarríkur.

Úrslitakeppnin í brennó var í morgun og mun liðið sem sigraði flesta leikina fá að keppa við foringjana á morgun. Eftir brennókeppnina fengum við síðan kjötbollur, kartöflumús og brúna sósu í hádegismat.

Eftir hádegismat var boðið upp á vatnsrennibraut og heitan pott. Vatnsrennibrautin var mjög spennandi og veðrið var frábært.

Eftir kaffitímann fóru allar stúlkurnar í stuttan göngutúr á meðan nokkrir foringjar undirbjuggu ævintýraleik inni í Ölveri. Þegar þær komu úr göngutúrnum beið þeim svokallaður „ævintýragangur“ þar sem þær fóru saman í hvert herbergið á fætur öðru þar sem persónur úr Mjallhvít tóku á móti þeim og sýndu þeim eitthvað skemmtilegt.

Stúlkurnar voru duglegar að borða veislu-pítsuna í kvöld í sínu fínasta pússi. Eftir kvöldmat tók svo við veislukvöldvaka þar sem foringjar sáu um skemmtiatriði. Þessi kvöldvaka endaði með óvenjulegu sniði þar sem foringjar ruddust inn í náttfötum og buðu öllum í náttfatapartý. Í náttfatapartýinu var mikið dansað og sungið og að lokum fengu allar stúlkurnar frostpinna og hlustuðu á skemmtilegar sögur.

Starfsfólk Ölvers þakkar kærlega fyrir allar þessar yndislegu, glöðu og hæfileikaríki stelpur sem hafa dvalið síðastliðna viku í Ölveri og við vonum svo sannarlega að við fáum að sjá þær allar aftur á næsta ári 🙂

Minnum á að áætluð heimkoma á morgun (sunnudag) á Holtaveg 28 er kl.18:00.

Kær kveðja,

Þóra Björg