Það eru frábærar stelpur sem eru mættar hingað upp í Ölver og fyrsti dagurinn gekk mjög vel. Þegar allar voru búnar að koma sér vel fyrir í herbergjunum fengu þær súpu og brauð og héldu svo út á leikvöll þar sem þær fóru í ýmsa leiki til að kynnast betur. Sólin skein meiri að segja smá á þær! Þá var komið að kaffitímanum þar sem þær fengu ljúffengar heimabakaðar veitingar. Eftir kaffi var farið inn í íþróttahús í brennó og íþróttakeppni. Tvö herbergi fóru svo að æfa leiki og leikrit fyrir kvöldvökuna á meðan hinar dunduðu sér við að perla og gera vinabönd.
Í kvöldmat var hakk og spaghetti og salat sem þær borðuðu með bestu lyst.
Eftir kvöldmat var kvöldvaka og síðan hófst skemmtilegur leikur þar sem þær áttu að finna út hver bænakonan þeirra væri. Eftir leikinn var bíó þar sem hægt var að „kaupa“ miða í 3 mismunandi bíósali og fengu þær að sjálfsögðu popp með.
Farið var frekar seint í háttinn en þær sofnuðu allar fjótt og sváfu vel.
Kær kveðja úr Ölverinu góða
Erla Björg