Dagurinn í gær var frábær hjá okkur í Ölverinu góða.  Stelpurnar vöknuðu hressar og eftir morgunmat og fánahyllingu var biblíulestur. Þar lærðu þær m.a að fletta upp í Nýja testamentinu og lærðu að við værum allar einstakar og hefðum allar hæfileika sem Guð hefur gefið okkur og vill að við notum til góðs. Þá var haldið í brennó og svo var hádegismatur sem var steiktur fiskur.  Eftir hádegið var hárgreiðslu og -förðunarkeppni. Þá var kominn kaffitími þar sem stelpurnar fengu m.a nýbakaðar bollur. Eftir kaffi fórum við í þrautaleik, þar áttu stelpunar að leysa alls kyns þrautir á mismunandi stöðvum en áttu á hættu á því að veiðimenn myndu ná þeim þannig að mikil spenna var í leiknum. Í kvöldmat var skyr og brauð og síðan var kvöldvaka í boði stelpnanna. Eftir kvöldvöku fengu 3 herbergi að fara í pottinn sem var mjög notalegt fyrir svefninn. Hinar voru upp í sal í skemmtilegum leik sem kallast „varúlfur“. Þær sofnuðu svo sælar eftir góðan dag!