Þá er komið að heimferðardegi, þetta er búið að líða alveg órtúlega hratt! Gærdagurinn var alveg hreint út sagt frábær. Þær fengu að sofa út um morguninn og var standandi morgunverður til kl.11. Eftir það kláraðist brennókeppnin og í ljós kom hverjir eru brennómeistarar Ölvers en það var „Wonderwoman“ liðið. Eftir hádegismat, sem var grjónagrautur og brauð, var haldið í óvissuferð upp í Vatnaskóg. Þar var þvílíkt vel tekið á móti okkur, stelpurnar fengu að vaða í ísköldu vatninu og sumar fóru alveg út í og síðan voru þær dregnar á tuðru.

Við drukkum kaffi með strákunum í Vatnaskógi sem fannst ekki leiðinlegt að fá svona fallegar og flottar stelpur í heimsókn og buðu margir sig fram til að vera sérlegir leiðsögumenn þeirra um staðinn. :O). Eftir þessa skemmtilegu heimsókn fóru þær í sund á Hlöðum.

Þá tók við veislukvöldmatur, pizza og kók, og síðan veislukvöldvaka í boði foringjanna sem sýndu snilldartakta í hverju leikritinu á fætur öðru. Þá var smá hrekkur sem við vorum búin að byggja upp allan daginn sem endaði svo í náttfatapartýi.

Í morgun vöknuðu þær kl.9.30 og fóru á síðasta biblíulesturinn sinn.  Það hefur verið sérlega ánægjulegt að tala við þær á þessum morgunstundum. þær eru mjög áhugasamar og hlusta einstaklega vel. Eftir það kepptu forningjarnir við þær í brennó og unnu naumlega.

Nú eru þær að borða hádegismat, kjúklingabollur og hrísgrjón. Á eftir fara þær síðan í ratleik og svo er það bara lokastundin og verðlaunaafhending.

Við erum eftir að sakna þessara frábæru stúlkna, þær hafa verið einstaklega góðar og skemmtilegar og þökkum við fyrir að  hafa fengið að hafa þær hjá okkur og vonumst til að sjá þær allar aftur á næsta ári.

Kær kveðja og Guð blessi ykkur

Erla Björg Káradóttir