Það voru kátar stúlkur sem mættu í Ölver í dag, tilbúnar í ævintýri vikunnar. Dagskráin hófst með hefðbundnum sniði. Eftir að stúlkurnar höfðu snætt hádegismat, komið sér fyrir í herbergjum og skoðað umhverfið fóru þær í leiki í lautinni. Í kaffinu var boðið upp á brauðbollur og jógúrtköku sem runnu vel niður í svangar stúlkurnar. Að loknum kaffitíma var farið yfir leikreglurnar í brennó en hér í Ölveri eru haldin brennómót í hverri viku þar sem herbergin keppa sín á milli. Í vikulokin fá sigurvegarar mótsins að keppa við starfsfólk sumarbúðanna og ríkir mikil spenna fyrir því.

Á hverju kvöldi er kvöldvaka þar sem eru sungnir hressir og góðir söngvar og stelpurnar fá sjálfar að sýna listir sýnar með leikþáttum eða að stjórna leikjum. Að kvöldvöku lokinni fara stelpurnar að hátta sig og bíða eftir sinni bænukonu, sem situr með þeim og les fyrir svefninn. En þessa vikuna erum við í ævintýraflokk svo í kvöld þurftu stúlkurnar aðeins að hafa fyrir því að finna sína bænakonu. Þær fengu vísbendingar um að staðsetning bænakvennanna leyndist hjá skrýtinni veru í skóginum, sem reyndist vera manneskja í náttkjól, með kórónu og í stígvélum! Eftir smá hlaup um skóginn, í alveg frábæru sumarveðri, fundu stúlkurnar veruna og svo sína bænukonu

Stúlkurnar lögðust ánægðar í bólin eftir góðan dag í Ölveri.

Sendi góðar kveðjur úr Ölveri,

Sólveig Reynisdóttir

IMG_8873