Í gær lét loksins þessi gula sjá sig á himnum. Við nýttum því að sjálfsögðu tækifærið eftir hádegismatinn og skelltum okkur í stuttbuxur og sundföt og héldum af stað niður að á. Þar fengu stúlkurnar að busla, vaða og sóla sig. Að sjálfsögðu blotnuðu nokkrar alveg uppfyrir mitti í kaldri ánni en glöddust yfir því hvað þeim varð fljótt hlýtt og þornuðu við árbakkann.

Eftir kaffi var keyrður í gang stöðvaleikur þar sem stelpurnar þurftu að reyna leysa þrautir. Það sem jók spennuna í leiknum var að á milli stöðva gátu þær rekist á „útilegumann“ sem var til alls líklegur en reyndist nú aðeins vera starfsmaður Ölvers í búning.

Eftir kvöldvöku og kvöldkaffi héldu stúlknar í háttinn og héldu þar með að dagskránni væri lokið. Það kom þeim því í opna skjöldu að blásið var á náttfatapartý með pompi og prakt. Mikill fögnuður breiddist um hópinn þegar þær áttuðu sig á hvað væri í uppsiglingu og þustu stelpurnar inn í sal þar sem beið þeirra dans, leikir, hreyfisöngvar og leikþættir.

Í dag byrjuðum við á að óska afmælisbarni flokksins til hamingju. Í kaffitíma fékk hún að sjálfsögðu afmæliskórónu og köku og sungu stelpurnar fyrir hana afmælissönginn.

Helstu dagskrárliðir dagsins voru áframhald á brennómótinu, æsispennandi sjóræningjaleikur með fjársjóðsleit, íþróttakeppni, pottabusl og kvöldvaka.

Svo má ekki gleyma að stúlkurnar eru að sjálfsögðu vel nærðar þar sem ráðskonan býður upp á alls konar gúmmelaði bæði mat og bakkelsi.

Það má með sanni segja að hér dvelja frábærar stúlkur sem una sér vel og eru duglegar að taka þátt í öllum dagskrárliðum.

Sendi frábærar stuðkveðjur héðan úr Ölveri,

Sólveig Reynisdóttir