Í dag rann upp veisludagur í Ölveri og vorum við svo heppnar að veðrið hefur leikið við okkur. Það var því tilvalið að skella sér í pottinn og draga út plastdúk sem stúlkurnar gátu rennt sér á niður í laut. Eftir kaffi, þar sem boðið var upp á súkkulaðibollur og rice kripies kökur, voru allar stúlkurnar búnar að fara í sturtu og fóru að gera sig til fyrir veislukvöldmat og kvöldvöku. Mikil spenna ríkti fyrir kvöldinu og braust út mikill fögnuður þegar ilmur af heimabökuðum pítsum barst um matsalinn. Á kvöldvöku skemmtu starfsfólk Ölvers stelpunum og sýndu stórleik í skemmtilegum og fyndnum leikþáttum. Kvöldið vakti mikla lukku.

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Á morgun halda stúlkurnar aftur heim á leið eftir vikudvöl í Ölveri. Við vonum svo sannarlega að þær fari heim með góðar minningar héðan. Vikan hefur gengið frábærlega og stúlkurnar verið sjálfum sér og foreldrum til sóma 🙂 Við kveðjum því yndislegan hóp  af flottum, hæfileikríkum og glöðum stúlkum á morgun. Við vonumst svo sannarlega til að sjá þær á næsta ári.

Við, starfsfólk Ölvers, þökkum fyrir okkur.

Við minnum svo á að rútan kemur á Holtaveg 28 klukkan 18:00 á morgun (sunnudag).Þeir foreldrar sem ætla að sækja börn sín í hingað upp í Ölver eru beðnir um að koma tímanlega eða ekki seinna en klukkan 17:00.

Kær kveðja og Guð blessi ykkur,

Sólveig Reynisdóttir