Þrjátíu litlar skottur komu upp í Ölver í dag til að dvelja í Krílaflokki (6-9 ára). Margar þeirra voru að koma í sumarbúðir í fyrsta skipti og fyrir þær stelpur er fyrsti dagurinn alltaf svolítil áskorun. En gleði og eftirvænting hinna meira reyndu var fljót að smitast yfir til hinna og hér hefur leikur og kátína verið ríkjandi í dag.
Við skiptum hópnum í fjögur herbergi strax í rútunni og gættum þess að allar vinkonur, systur og frænkur fengju að vera saman í herbergi. Þegar stelpurnar höfðu komið sér fyrir og fengið aðstoð við að búa um sig tók svo við hádegismatur og kynning á starfsfólki og reglum staðarins. Að þvi loknu var farið í gönguferð um svæðið og stelpurnar kynntar fyrir því helsta, girðingunni, aparólunni, fótboltavellinum og heimsins stærsta hengirúmi.
Eftir kaffi (alltaf nýbakað úr eldhúsinu okkar að sjálfsögðu) var keppt í tveimur íþróttagreinum (brekkuhlaup og sipp) og svo voru allar stelpurnar skolaðar í pottinum. Það vakti aldeilis lukku!
Flokkurinn er stuttur en mikilvægt að leyfa þessum litlu skottum að upplifa sem mest af því sem Ölver hefur upp á að bjóða. Þess vegna var ákveðið að bíða ekki eftir neinu heldur hafa kvöldævintýrið strax fyrsta kvöldið þegar orkan að heiman er enn næg. Þannig fór því að eftir kvöldvöku þar sem Hamraver og Lindarver sáu um skemmtiatriði, týndust foringjarnir. Þetta kom í ljós þegar stelpurnar voru háttaðar og farnar að bíða eftir sínum bænakonum. Því var ráðist í að leita að þeim út um allan skóg og í ljós komu ýmsar kynjaverur sem höfðu falið sig í skóginum. Til að bæta fyrir prakkarastrikið buðu foringjarnir þvi upp á náttafatapartý!! Dans og söngur, sögur, leikir og poppstund var því það síðasta sem stúlkurnar litlu fengu að upplifa áður en þær skriðu upp í ból eftir þennan fyrsta dag í Ölveri.
Enn og aftur er ég komin hingað til að upplifa ævintýri á þessum dásamlega stað. Með mér er einvala lið eins og venulega. Tveir eldhússtarfsmenn, fimm foringjar og fimm aðstoðarforingjar. Við erum óvenju margar í þessum flokki, þrátt fyrir að stúlkurnar séu nokkuð færri en venjulega. Það kemur til vegna þess að þær eru litlar og þurfa mikla athygli, aðstoð, umönnun, ást og umhyggju. Af þessu öllu eigum við til nóg! Mér líst vel á hópinn og hlakka til að njóta næstu daga með honum.
Takk fyrir í dag.
Ásta Sóllilja, forstöðukona