Hér var vakið klukkan 08:00 í morgun. Reyndar voru sumar þá þegar vaknaðar og spenntar að byrja daginn. Aðrar voru greinilega þreyttar eftir ævintýri gærdagsins og þurftu þær aðeins meiri hjálp við að koma sér á fætur.

Eftir morgunmat og fánahyllingu fengu herbergin aðstoð við að taka til í herbergjunum sínum og undirbúa þau fyrir stjörnugjöf. Hér í Ölveri er nefnilega hegðunar og umgengniskeppni á milli herbergja sem veitt er viðurkenning fyrir síðasta daginn. Eftir tiltektina tók við biblíulestur þar sem við fjölluðum um það með stelpunum hversu mikilvægt það er að byggja líf sitt á traustum grunni, orði Guðs. Eftir biblíulestur tók svo við fyrsta umferð brennókeppni.

Í hádegismat fengum við hakk og spagetti, ferskt grænmeti og nýbakað brauð. Svo var haldið í langa útivist. Við gengum hringinn í kringum sumarbústaðahverfið hér fyrir neðan og stoppuðum á leikvelli til að fara í skemmtilega leiki. Það voru allir ánægður með að fá smá útivist og hreyfingu í kroppinn.
Þar sem það var heitavatnslaust í Ölveri megnið af deginum komumst við ekki í pottinn í dag. Það kom þó ekkert að sök. Eftir kaffi voru allir drifnir í tvær íþróttagreinar (tveggja-staða-hlaup og hopp-á-einari) og hárgreiðslukeppni. Eftir það var boðið upp á ýmislegt skemmtilegt eins og perl og spil og brennibolta. Margar stelpur völdu þó að leika frjálst enda mikill leikur í þessum hóp.
Kvöldið var svo með venjulegra sniði í dag en í gær. Skógarver og Hlíðarver buðu upp á skemmtiatriði á kvöldvökunni og eftir kvöldkaffi dreifðu foringjar og aðstoðarforingjar dreifðu sér á herbergin til að lesa, spjalla og svæfa. Það voru þreyttir kollar sem lögðust á koddana sína í Ölveri í kvöld.
Eins og alltaf þegar stelpurnar í flokknum eru smáar þá er nokkuð um lítil hjörtu, sérstaklega þegar háttatíminn nálgast. Hér er hins vegar nóg af þolinmóðu og hjartahlýju starfsfólki sem tekst á við allar áskoranir af alúð og umhyggju. Enginn er lengi leiður hér enda enginn tími fyrir það. Við kveðjum þakklátar þennan dag og bíðum spenntar eftir næsta.

 

Ásta Sóllilja, forstöðukona