Í dag var sannkallaður veisludagur eins og venjulega á síðasta heila degi Ölversdvalar. Við vöknuðum í miklum vindi eins og þeir sem fylgjast með fréttum af veðrinu undir Hafnarfjalli vita. Við ákváðum því að treysta ekki um of á útivistarmöguleika þennan daginn heldur nota ímyndunaraflið til að útbúa skemmtilega innidagskrá.
Eftir hefðbundna morgundagskrá (morgunmatur, fánahylling, tiltekt, biblíulestur og brennókeppni) fengum við ekta Ölvers-grjónagraut í hádegismat. Að hádegisverði loknum tóku svo við spennandi tímar. Stelpunum var smalað út í íþróttahús þar sem trúður og hamborgari héldu uppi stuðinu með íþróttum, söng og leikjum. Á meðan útbjó hitt starfsfólkið sannkallaða ævintýrareisu í aðalbyggingunni. Trúðurinn leiddi svo herbergin eitt af öðru í gegnum spennandi ævintýragang. Á ævintýraganginum heimsóttu stelpurnar sex stöðvar. Á þeirri fyrstu hittu þær fyrir Gullbrá sofandi í rúmi litla bangsa. Til að komast í gegnum þá stöð aðstoðuðu þær hana við að smakka úr þremur grautarskálum og reisa við litla kollinn sem hún hafði hrint um koll þegar hún reyndi að setjast í hann. Því næst hittu þær fyrir ógurlega norn í helli sínum sem sat og hrærði í nornaseyði sem í voru ormar og krókódílaaugu og hvaðeina. Þeim var ekki hleypt úr hellinum fyrr en ein hugrökk dama hafði tekið að sér að smakka á nornaseyðnum. Á þriðju stöðinni beið svo eftir stelpunum strumpur sem kenndi þeim að dansa makarena dansinn í strumpastíl. Eftir hreyfinguna var svo spennandi að hitta fyrir hræðilegan sjóræningja og stinga hendinni í óvissu ofna í göt á pappakassa til að þreifa á t.d. auga, fingri og heila, á meðan sjóræninginn sagði ægisögur af sjálfum sér. Það þótti mörgum frekar ógeðfelld lífsreynsla og urðu fegnar þegar þær fengu að yfirgefa sjóræningann til að hitta frekar fyrir hina fögru Elsu sem margir þekkja úr teiknimyndinni Frozen. Elsa fékk þær til að syngja með sér lag úr teiknimyndinni og fékk síðan staðfestingu á því að þær væru jafn góðhjartaðar og Anna prinsessa með því að láta þær hjálpa sér að breyta vatni í snjó. (Já, við getum töfrað í Ölveri!) Á síðustu stöðinni voru jólin! Þar beið þeirra talandi jólatré sem átti eftir að skreyta. Svo dönsuðu þær í kringum jólatré og fengu sleikjó í jólapakka. Stelpurnar voru rosalega ánægðar með ævintýraleikinn og komu allar skælbrosandi og fullar af sögum í föndurhornið að göngunni lokinni.
Eftir kaffi fóru allar stelpur í pottinn og smelltu sér svo í spariföt. Þær sem vildu fengu greiðslu og á tímabili voru hér 7 starfsmenn á ganginum á fullu að flétta litla hausa. Þegar allar voru orðnar fínar og sætar byrjaði veislan. Pizzur og gos og rice krispies kökur í skreyttum matsalnum var bara byrjunin. Við tók svo sprenghlægileg kvöldvaka í höndum foringjanna okkar skemmtilegu sem buðu upp á leikrit kvöldsins. Þar var ekki lítið helgið!
Nú er þessi dagur að kvöldi kominn og bænakonurnar í síðasta sinn inn á herbergjum að svæfa í þetta sinn. Allar stelpur verða senda heim með persónleg skilaboð frá sinni bænakonu á fallegum miða og vonandi munu þeir varðveitast og vera þeim til minningar um góðar og dýrmætar stundir í Ölveri.
Á morgun verður líklega lítið um skriftir enda nóg að gera við pökkun og frágang í bland við skemmtilega dagskrá. Til stendur að halda einn biblíulestur í viðbót og svo fær vinningsliðið í brennó að keppa við foringjana. Það er alltaf mikið stuð og sprell. Eftir hádegi fara svo herbergin í skemmtilegan ratleik um svæðið sem þær nú þekkja svo vel. Eftir ratleikinn er svo lítið eftir annað en kaffi, lokastund og heimferð.
Eins og alltaf þegar kemur að endalokum dvalar í Ölveri er ég þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast dýrmætu litlu fólki sem hefur svo margt til lífsins að leggja. Það eru forréttindi að vera hér og heiður að vera treyst til að hugsa um þessi litlu skott þegar þau taka stór skref út í lífið. Takk fyrir mig í þetta sinn.
Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, forstöðukona.