Dagurinn í dag hefur verið algjörlega frábær. Stelpurnar vöknuðu kl.9 (sumar reyndar mun fyrr ;O) og fengu sér morgunmat kl.9.30, þá var farið á fánahyllingu og í tiltekt en það er keppni á milli herbergja í hegðun og snyrtimennsku. Þá fóru þær á Biblíulestur þar sem þær lærðu um mikilvægi þess að vera ljós í heiminum og gera öðrum gott.

Eftir hádegismat sem var steiktur fiskur fórum við í svakalega göngu, þar sem við börðumst m.a við lúpínur, klifruðum upp á risastóran stein, festumst í drullu, týndum glás af berjum, fórum upp á fjall, lentum í glaða sólskini en líka hellidembu!

Í kaffinu fengu þær nýbakaðar bollur og kökusneið og þá var farið í íþróttakeppni þar sem keppt var í sippi og hver væri með stærsta brosið. Því næst fóru þær í heita pottinn á meðan eitt herbergi æfði leikrit fyrir kvöldið. Í kvöldmat var skyr með berjunum sem þær týndu og síðan var frábær kvöldvaka í boði Hamravers sem er nafnið á einu herberginu.

Eftir að hafa fengið ávexti í kvöldkaffi tilkynnti ég þeim að bænakonurnar væru týndar og þær yrðu að fara út að leita af þeim. Það hljóp mikil spenna í liðið sem fann sína bænakonu að lokum en þær voru prýddar alls kyns skrítnum búningum.

Þær sofnuðu svo sælar eftir góðan dag um kl.24.

Kær kveðja úr Ölverinu góða

Erla Björg