Dagurinn í dag gekk vel og var mjög skemmtilegur í alla staði. Hann hófst eins og vanalega á morgunmat, fánahyllingu og tiltekt. Þá fóru stelpurnar á biblíulestur þar sem þær veltu heyrðu framhaldsögu og lærðu að fletta upp í Nýja testamentinu. Þá hélt spennandi brennókeppnin áfram og svo var komið að hádegismat þar sem þær borðuðu kornflexkjúkling. Eftir hádegi var farið í hárgreiðslukeppni þar sem hver snilldargreiðslan á fætur annarri leit dagsins ljós. Eftir það var val þar sem stelpurnar völdu sér að lakka steina með naglalakki, föndra eða fara út í laut í leiki. Eftir kaffi þar sem þær fengu pizzusnúða og sjónvarpsköku fóru þær í íþróttakeppni þar sem keppt var í jötunfötu og köngulóarhlaupi. Nokkrar stúlkur völdu svo að fara í heita pottinn fyrir kvöldmat sem var grjónagrautur og brauð. Um kvöldið sá Lindarver um að skemmta okkur með leikjum og leikritum. Eftir kvöldvöku var bíókvöld þar sem allir lágu á flatsæng og horfðu á Fríðu og Dýrið og borðuðu popp. Þær voru að vanda duglegar að fara að sofa og ró var komin í húsið kl.24.