Stelpurnar vöknuðu hressar í morgun og eftir morgunmat, fánahyllingu og tiltekt fóru þær eins og vanalega á biblíulestur þar sem þær lærðu um m.a um kærleikann og versið úr Jóh 3.16, „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ Þá kláraðist brennókeppnin og í ljós kom að lið „Beyonce“ sigraði. Í hádegismatinn voru fiskibollur, kartöflur og salat. Eftir hádegi var farið í leik þar sem stelpurnar gengu á milli stöðva í fylgd engils og hittu fyrir brjálaðan vísindamann, tröllskessu, smábarn, strump og ógurlega norn sem ætlaði að leggja álög á Ölver og breyta því í vetrarbúðir, en verkefni stelpnanna var einmitt að koma í veg fyrir það með því að leysa alls kyns þrautir. Eftir kaffitímann var svo hæfileikakeppni þar sem frábær atriði voru á dagskrá. Í kvöldmatinn voru pylsur og síðan hófst kvöldvaka í boði Skógarvers. Um kvöldið var svo náttfatapartý þar sem var mikið stuð og stemmning!