Það eru ótrúlega kraftmiklar og flottar stelpur sem komu uppeftir til okkar í gær. Við byrjuðum á að safnast saman inní matsal þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir reglur. Næst var öllum skipt niður á herbergi en þær eru ýmist 6 eða 8 saman í herbergi. Í hádegismat fengu þær súpu og brauð en eftir hann var farið í könnunarleiðangur um svæðið en endað var inni í íþróttahúsi í brennó. Í kaffinu fengu þær svo súkkulaðiköku og mjólk. Eftir kaffi var farið í íþróttakeppni, keppt var í jötunfötu og um stærsta brosið. Sólin skein seinnipartinn og blásið var í hoppukastala og leikrit æfð fyrir kvöldið. Í kvöldmat voru fiskibollur með karrýsósu og hrísgrjónum. Um kvöldið var svo kvöldvaka í boði herbergjanna Fjalla-og Fuglavers og þær fengu að heyra pínulítið um sögu Ölvers og kjarnakonurnar sem stóðu að stofnun þess. En þessi flokkur samanstendur einmitt af miklum kjarnakonum sem eru sérlega skemmtilegar, þær taka vel eftir, taka vel þátt, hlusta vel og syngja vel.

Ég hlakka til næstu daga með þeim og þið fáið fleiri fréttir á morgun!

Myndir