Dagurinn hjá okkur hefur verið frábær. Stelpurnar vöknuðu kl.8.30 hressar og kátar, þó sumir hafi farið frekar seint að sofa enda spenningurinn oft mikill fyrsta kvöldið. Hver dagur byrjar á morgunmat kl.9 og síðan er farið út að fána og hann hylltur. Þá er alltaf ráðist í tiltekt því það er keppni á milli herbergja hverjir ganga best um og hverjir eru þægastir á kvöldin. Fyrsti Biblíulesturinn var haldinn og lærðu þær um Biblíuna og að fletta upp í Nýja testamentinu. Þá var haldið í brennókeppni inn í leikskála þar sem búið er að skipta þeim uppí lið sem heita öll eftir Disney prinsessum. Eftir hádegismatinn sem var fiskréttur var haldið í göngu upp á fjallið okkar sem við köllum Ölversfjall (en heitir í raun Blákollur). Eftir gönguna var farið í hárgreiðslukeppni þar sem stelpurnar voru ýmist hárgreiðslumeistarar eða módel.

Í kaffinu var heimabakað gúmmelaði eins og á hverjum degi og síðan var keppt í stígvélasparki og spretthlaupi sem er liður í daglegri íþróttakeppni. Síðan var farið í heita pottinn. Í kvöldmat var svo bleikt skyr sem þær átu upp til agna. Á kvöldvökunni sáu Hlíðarver og Skógarver um að skemmta okkur og þær fengu að heyra sögu.

Þær voru mjög fljótar að sofna enda vel þreyttar eftir annasaman dag 😉

Myndir