Í Ölveri var sofið út til hálf tíu í morgun enda var dansað í náttfatapartýi fram á kvöld í gær. Stelpurnar sváfu fast og vel í sveitaloftinu og fengu svo kornfleks, seríos og hafragraut í morgunmat. Fáninn var hylltur í svolitlum úða og alskýjað var úti en afar milt. Á biblíulestri fengu stelpurnar að heyra um hvað þær eru allar einstakar og Guð elskar þær alveg eins og þær eru. Þá fengu tvær úr hópnum að draga mannakorn, en það eru litlir miðar með völdum tilvitnunum í Biblíuna. Allur hópurinn fékk svo að fletta versunum upp sem voru svo lesin upp og stelpurnar hugleiddu um merkingu þeirra. Í hádeginu var boðið upp á kjötfarsbollur, kartöflumús og ferskt grænmeti. Eftir hádegi kom til okkar góður gestur sem kenndi stelpunum að búa til brjóstsykur. Hópurinn horfði á úr góðri fjarlægð á meðan heitur sykurinn var meðhöndlaður en fengu að kíkja nær þegar hann hafði kólnað. Svo fengu allar bút af volgum brjóstsykri, sem þær klipptu sjálfar niður í litla eða stóra mola. Hópurinn fékk að gera nokkrar tegundir af molum, lakkrís, jarðarberja, tutti frutti og kóla. Stúlkurnar voru afar spenntar í brjóstsykursgerðinni og eru búnar að japla á molunum sínum í dag. Í kaffi fengu þær nýbakaðar bollur með smjöri og ilmandi kanillengjur. Eftir kaffitímann kláruðum við grímugerðina. Þær grímur sem voru tilbúnar voru málaðar og glimmeraðar og erum við með þvílík listaverk hér í húsi eftir þessa vikuna! Í kvöldmat var svo skyr og brauð með kæfu, mysingi, skinku og osti, þó ekki allt saman. Eftir kvöldmatinn var svo haldið út í íþróttahús þar sem brennókeppni dagsins fór fram. Stelpurnar eru ansi góðar skyttur og standa sig vel í boltanum. Á kvöldvökunni var sungið og trallað og Lindarver var með glæsileg skemmtiatriði fyrir hópinn, leikrit og leik. Stelpunum gekk vel að sofna í kvöld, sáttar eftir daginn.
Við sendum kveðjur heim frá hressum og góðum stúlkum í Ölveri.
Nýjar myndir hér.
Með kveðju.
Salvör Þórisdóttir, forstöðukona