Nánast allar stúlkurnar hér í Ölveri voru steinsofandi þegar þær voru vaktar kl. 9 í morgun. Þær fengu hefðbundinn morgunmat, seríos, kornfleks og hafragraut. Eftir morgunmat var að venju fánahylling og herbergjatiltekt. Sumar voru rosalega duglegar og tóku líka til í salnum uppi og gengu frá öllum skóm í forstofunni. Allt í einu kom ókunnugur bíll upp heimreiðina og allar stelpurnar þustu út í glugga á herbergjunum sínum, en þeim hafði verið sagt í morgunmatnum að það væru leynigestir á leiðinni. Leynigestirnir Guðni Már, prestur í Lindakirkju, og Björgvin Franz, leikari, voru mættir með heilmikið leiklistar- og töfrabragða prógramm fyrir hópinn. Fyrst var byrjað á að fara í allskyns leikjum til að hita hópinn upp, þær fóru í mólíkúl-leikinn, ávaxtakörfu o.fl. Svo var farið út í íþróttahús í fleiri leiki, t.a.m. „Hér kem ég“ sem er skemmtilegur leikur sem reynir bæði á leiklistarhæfileika, viðbragð og hlaup. Eftir allskyns leiki var snúið aftur inn þar sem leynigestirnir og foringjar sýndu leikrit, farið var í leiklistarleiki þar sem stelpurnar fengu að spreyta sig í spuna o.fl. Í hádegismat fengu dömurnar kornflekskjúkling, hrísgrjón, grænmeti og kokteilsósu. Að mat loknum hélt prógrammið áfram og Björgvin Franz sýndi listir sínar í töfrabrögðum. Hann kenndi stelpunum nokkur töfrabrögð, sem þær eiga eflaust eftir að sýna fjölskyldunni þegar heim kemur. Svo var tekin hópmynd og áður en leynigestirnir hurfu á braut þustu stelpurnar til þeirra og fengu eiginhandaráritanir. Áður en komið var að kaffi fengu þær stúlkur, sem áttu eftir að mála grímurnar sínar, að gera það. Í kaffi var boðið upp á eplaköku, kókoskúlur og djús. Eftir kaffi fórum við í pottinn, sem reyndist í það kaldasta, en flestar vildu ólmar fá að stinga sér aðeins. Þar sem sólin var svo loksins farin að skína seinnipartinn blésum við upp hoppukastaladýnu og fengu dömurnar að hoppa í sólinni og nokkuð miklum vindi. Í dag og síðustu daga hafa stúlkurnar verið ansi spenntar fyrir hæfileikakeppni sem verður á morgun, laugardag, og hafa verið að æfa hin ýmsu atriði fyrir keppnina. Söngurinn ómar úr nánast hverju herbergi hérna daginn út og daginn inn. Í kvöldmat var ljúffengt pastasalat og brauð með malakoffi, kæfu og eggjum. Eftir kvöldmatinn var að sjálfsögðu haldin kvöldvaka og Ölverslögin sungin. Hamraver og Hlíðarver voru með stóskemmtileg skemmtiatriði fyrir allan hópinn og lukkaðist það vel. Þegar kvöldvakan kláraðist fengu stelpurnar að vita að það væri video kvöld framundan! Allur hópurinn fór og sótti sængur, kodda og dýnur og klæddi sig í náttföt. Það var þvílík kósístemning uppi í sal þar sem allar lágu í notalegheitum, jöpluðu á poppi og horfðu á Big Hero 6. Nú er mikil ró yfir húsinu hér í Ölveri og myndin alveg að klárast. Þá tekur við næstsíðasta nóttin og framundan er Veisludagur og jafnframt síðasti heili dagurinn. Við sendum kveðjur úr sveitasælunni.

Salvör Þórisdóttir, forstöðukona