Veisludagur hófst í Ölveri í dag. Dömurnar voru vaktar að venju kl. 9 og fengu staðgóðan morgunverð. Öll hersingin fór svo út í fánahyllingu í ágætisveðri og síðan var tekið til í herbergjunum. Á biblíulestrinum lærðu stúlkurnar um orð guðs og Biblíuna og sungu. Þá fengu tvær stelpur í viðbót úr hópnum að draga sér mannakorn og allur hópurinn fletti þeim upp. Í brennó var haldin úrslitakeppni og var það liðið Pollapönk sem bar sigur úr býtum. Í hádegismat var steiktur fiskur og kartöflubátar. Eftir hádegi var haldin hæfileikakeppnin Ölver’s got talent. Dómararnir Jón Jónson, Bubbi Morthens og Selma Björnsdóttir mættu á svæðið, en einhverjum þóttu dómararnir ansi líkir foringjum hér í Ölveri. Sjö stórglæsileg atriði kepptu um titilinn hæfileikaríkustu Ölversstúlkurnar og dómararnir gáfu dóma sína eins og þeim einum er lagið. Í auglýsingahléum voru dómararnir svo með skemmtiatriði sem mikið var hlegið að. Sigurvegararnir verða svo krýndir á morgun. Í kaffinu var boðið upp á karamellulengjur og rice krispies kökur, en þær síðarnefndu voru sérstaklega vinsælar. Að því loknu var farið í skemmtilegan ratleik hér um svæðið þar sem verulega reyndi á sköpunargleði og útsjónasemi stelpnanna, sem áttu meðal annars að semja sögu, teikna myndir og svara ýmsum spurningum. Liðin fóru svo eitt af öðru í sturtu, klæddu sig í sparifötin og margar stúlknanna fengu fínar hárgreiðslur, enda veislukvöld framundan. Þegar blásið var til veislukvöldverðar var búið að breyta matsalnum, borðunum raðað einu og einu, kertaljós á öllum borðum, og hvert sæti merkt með litlum miða undir matardisknum. Stelpurnar fóru því í röð við matsalinn og var fimm hleypt inn í einu, sem fengu að finna sætið sitt. Þegar allir voru komnir inn var reiddur fram veislukvöldverður, sem að þessu sinni var Ölverspizza og gos. Stúlkurnar borðuðu af bestu lyst og kynntust nýjum vinkonum við borðið enda sætaskipanin önnur en vanalega. Eftir kvöldmat þustu nánast allar út í góða veðrið því sólin var loksins farin að skína og hitinn um 14 gráður. Margar voru búnar að skipta úr sparifötunum í stuttbuxur og einhverjar lögðust á handklæði í sólbað. Stór hópur fór niður í laut að spila skotbolta og aðrir voru dreifðir um svæðið að njóta veðurblíðunnar. Í ljósi þessa nýfengna blíðveðurs var ákveðið að halda veislukvöldvökuna úti og settust stelpurnar í brekkuna við stéttina, sem þjónaði sem svið þetta kvöldið. Stelpurnar sungu öll Ölverslögin og foringjarnir voru með snilldarleg leikrit fyrir hópinn. Meðal annars fengu þær að sjá Hermann 97, Dansskólann, Lata Gvend o.fl. Eftir skemmtiatriðin færðist kvöldvakan upp í sal og þar voru sungin róleg lög og hópurinn fékk að heyra hugleiðingu um bænina. Þegar syngja átti kvöldsönginn komu hins vegar allir foringjarnir upp á svið og sungu Ölverslagið 2015, sem sungið var við ísraelska Eurovisionlagið. Eftir frumflutning lagsins fengu stelpurnar að syngja lagið og læra hreyfingarnar við það. Það var rosa fjör í hópnum sem söng og dansaði eins og aldrei fyrr. Að lokum söng hópurinn kvöldsönginn í síðasta sinn, fékk sér kvöldhressingu og svo beint inn á herbergi að hátta. Þegar bænakonurnar komu inn á herbergin drógu stúlkurnar fram nafnamiðana sína sem voru undir matardiskunum í kvöldmatnum því á þá var búið að skrifa ritningarvers úr Nýja Testamentinu. Bænakonurnar eru nú að fletta upp versum stelpnanna og koma þeim í ró. Það hefur því verið ansi viðburðarríkur og virkilega skemmtilegur veisludagur. Við sendum því góðar kveðjur heim frá þessum frábæru og hjartahlýju stelpum úr blíðunni og fuglasöngnum í Ölveri.
Sjá myndir hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157654664770142/
Með kveðju.
Salvör Þórisdóttir, forstöðukona