Það voru 45 hressar stelpur sem komu til okkar í dag tilbúnar í ævintýri og gaman. Eftir að þær voru búnar að koma sér fyrirí herbergjunum og borða súpu og brauð var farið í gönguferð um svæðið og spilað brennó, en brennókeppni er órjúfanlegur þáttur af starfinu okkar hér. Eftir kaffitíma, þar sem þær fengu köku með bleiku kremi og pizzusnúð, byrjaði íþróttakeppnin með sippukeppni. Við reynum að hafa fjölbreyttar keppnir svo að flestir finna sig í einhverju. Þá var frjáls tími sem margar nýttu til útiveru enda veðrið gott og blásið var í hoppudýnuna. Í kvöldmat var svo boðið upp á kjötbollur, kartöflumús og brúna sósu.
Einn af föstu punktunum hjá okkur er svo kvöldvaka, þá fá öll herbergi að skiptast á að sjá um skemmtidagskrá svo syngjum við mikið og svo endar kvöldvakan með hugleiðingu . Í kvöldkaffi er svo vanalega boðið upp á ávexti.
Einn af stóru spennuþáttunum fyrsta kvöldið er svo að fá að vita hvaða bænakonu hvert herbergi fær. En bænakonan endar daginn með stelpunum, ýmist með sögum, söng, sprelli og bæn. Að þessu sinni voru bænakonurnar búnar að fela sig úti í skógi og þurftu stelpurnar því að fara út að leita að þeim sem vakti mikla lukku. Ágætlega gekk að fá ró í húsið og sofnuðu flest allar fljótt og vel þetta fyrsta kvöld þó örlað hafi á pínulítilli heimþrá hjá nokkrum.
Kær kveðja frá starfsfólki Ölvers