Dagurinn hjá okkur hefur verið frábær. Stelpurnar vöknuðu kl.8.30 hressar og kátar, þó sumir hafi farið frekar seint að sofa enda spenningurinn oft mikill fyrsta kvöldið. Hver dagur byrjar á morgunmat kl.9 og síðan er farið út að fána og hann hylltur. Þá er alltaf ráðist í tiltekt því það er keppni á milli herbergja hverjir ganga best um og hverjir eru þægastir á kvöldin. Fyrsti Biblíulesturinn var haldinn og lærðu þær um Biblíuna og að fletta upp í Nýja testamentinu. Þá var haldið í brennókeppni inn í leikskála þar sem búið er að skipta þeim uppí lið sem heita öll eftir einhverjum framandi dýrum. Eftir hádegismatinn sem var fiskréttur var haldið í göngu upp á fjallið okkar sem við köllum Ölversfjall (en heitir í raun Blákollur). Eftir gönguna var farið í hárgreiðslukeppni þar sem stelpurnar voru ýmist hárgreiðslumeistarar eða módel.
Í kaffinu var heimabakað gúmmelaði eins og á hverjum degi og síðan var mælt hver væri með breiðasta brosið sem er liður í daglegri íþróttakeppni. Síðan var farið í heita pottinn. Í kvöldmat var svo bleikt skyr sem þær átu upp til agna. Á kvöldvökunni sáu Hlíðarver og Skógarver um að skemmta okkur og þær fengu að heyra sögu.
Þegar allar voru komnar inná bænaherbergin byrjaði allt einu hávær tónlist að glymja um húsið og blásið var í náttfatapartý. Þar var mikið dansað, farið í leiki, leikrit var sýnt af foringjunum og í heimsókn kom verulega skrýtin kona úr sveitinni, sem birtist allt í einu öllum að óvörum, en sem betur fer var hún bara hress og gaf öllum ís sem framleiddur var af beljunum á bænum hennar 😉
Allar sofnuðu fljótt eftir góðan og annasaman dag 😉