Vikan fer vel af stað og stelpurnar búnar að koma sér vel fyrir. Eftir að rútan renndi í hlað var stelpunum raðað niður í herbergi og vinkonur fengu að sjálfsögðu að vera saman. Eftir að búið var að koma sér fyrir var kakósúpa og brauð í hádegismat.

Stelpurnar skoðuðu svæðið með foringjunum og fóru í nafnaleiki en það er ekki léttur leikur að læra 45 ný nöfn. Í kaffitímanum borðuðum við bollur og bananabrauð og stelpurnar gerðu sig tilbúnar í ævintýraleik þar sem þær fóru t.d. í danskeppni við tröllskessur.

Í kvöldmat var fiskréttur og svo héldu stelpurnar á kvöldvöku þar sem skemmtiatriðin voru í boði Fugla- og Fjallavers. Mikið var sungið og hlegið og hópurinn hristist vel saman.

Í lok dags fengu stelpurnar epli og banana og fóru svo út að leita að bænakonunni sinni, en hún kemur inn til stelpnanna í lok hvers dags spjallar við þær, les og biður með þeim.

En hafa engar kvartanir borist frá stelpunum um mýbit og vonum við að mýið haldi sig fjarri í vikunni.

 

Hafdís Maria forstöðukona