Sólin lék aldeilis við okkur í gær og voru stelpurnar mikið úti.

Stelpurnar voru vaktar klukkan 9 og hálftíma síðar var morgunmatur. Þær fóru á fánahyllingu og tóku svo til í herbergjunum sínum fyrir hegðunarkeppnina sem er í gangi alla vikuna.

Í hádegismat voru dýrindis kjötbollur með kartöflumús og brúnni sósu. Eftir hádegismat héldum við niður að á þar sem hægt var að vaða og sóla sig. Kaffið var sérstaklega ljúfengt þar sem muffins og skinkuhorn voru á borðstólnum.
Stígvélakast var ein af keppnisgreinum dagsins í íþróttakeppninni en hún er einnig í gangi alla vikuna. Heiti potturinn var mjög vinsæll í gær og voru stelpurnar því orðnar hreinar og fínar fyrir kvöldmatinn en það var skyr í matinn.

Þar sem veðrið var enn gott um kvöldið héldum við útikvöldvöku með bleiku þema þar sem skemmtiatriðin voru í boði Hamravers. Stelpunum var svo komið á óvart með vídjókvöldi þar sem horft var á skemmtilega stelpumynd og þær fengu popp með.

Það voru því þreyttar en sáttar stelpur sem fóru að sofa hér í Ölveri.

-Hafdís Maria