Héðan er allt frábært að frétta. Fyrstu tveir dagarnir hafa farið mjög vel af stað enda einstaklega flottur hópur sem við fengum hingað uppeftir.

Í gær þegar allir voru búnir að koma sér fyrir var farið í fullt af leikjum til að hrista hópinn saman og til að kynnast betur. Brennókeppninn hóf einnig strax göngu sína en hún  er ómissandi þáttur í starfi Ölvers. Eftir hana var boðið uppá alls kyns dundur eins og vinabandagerð og skartgripagerð. Eitt herbergið æfði leikrit og leiki og undirbjó kvöldvökuna en hvert og eitt herbergi skiptist á að halda uppi fjörinu á kvöldvökunum. Herbergin eru 5 og eru þær ýmist 6-8 saman í herbergi.

Eftir kvöldmat sem voru kjúklingaleggir og kartöflur var kvöldvakan en eftir hana hófst leit að bænakonunum en hvert herbergi er með sína bænakonu sem kemur inná hverju kvöldi og spjallar við stelpurnar og biður með þeim kvöldbænirnar.

Ró var komin á um miðnætti og flestar sofnaðar kl.01.

Í dag hófst dagurinn á morgunverði og fánahyllingu en síðan var blásið á Biblíulestur sem er einn af föstu liðunum okkar. Í dag lærðu þær dæmisöguna um mennina tvo sem byggðu hús sitt á bjargi og sandi og við ræddum hvernig grunn við myndum vilja byggja líf okkar á. Einnig kynntust þær Biblíunni betur og lærðu að fletta uppí Nýja testamentinu.

Eftir hádegismat sem var hakk og spagetti var slegið í allsherjar Ölvers next Top model keppni þar sem glæsilegar hárgreiðslur, farðanir og klæðaburður réðu ríkjum. Endað var á tískusýningu sem var í alla staða glæsileg. Mikið hugmyndarflug og sköpun í gangi og frábær samvinna.

Eftir heitt kakó og mikið gúmmelaði í kaffitímanum var þeim skipt upp í hópa þar sem hver hópur táknaði eitt land. Þær fóru í einkennisbúninga, bjuggu til fána og slagorð og síðan var keppni á milli landi úti i sólinni í ýmsum greinum eins og stígvélasparki og rúsínuspýtingum.

Nú eru þær allnokkrar í heita pottinum en við bjóðum upp á hann á hverjum degi. Í kvöld verður að sjálfsögðu kvöldvaka en tvö herbergi eru nú að æfa atriði fyrir kvöldið.

Í kvöldmat verður ávaxtasúrmjólk og pizzabrauð og stefnt er á að hafa bíó og popp uppí sal fyrir svefninn.

Fleiri fréttir koma næstu daga!

Kær kveðja Erla Björg forstöðukona