Það er aldeilis búið að vera nóg að gera hjá okkur síðustu daga hér í Ölveri. Í gær eftir morgunmat völdu stelpurnar sér hóp en þema dagsins var TALENT út frá sögunni í Biblíunni um talenturnar (mynt) sem þremur þjónum voru gefnar og hvernig þeir fóru mismunandi með þær. Hvatning okkar til stelpnanna var að nota þá hæfileika sem þeim eru gefnar og nota þá til góðs. Þær völdu ýmist dans-myndlistar-söng eða bænahóp og afraksturinn var meiriháttar, mikil sköpun í gangi enda hæfileikaríkar stúlkur á ferð. Eftir hádegismat var samverustund þar sem hóparnir sýndu listir sínar, beðið var á nokkrum tungumálum og við hugleiddum hvað allir eru ólíkir en allir eru jafn mikilvægir  og með ákveðinn tilgang.

Eftir kaffitímann var hæfileikakeppni þar sem margir tóku þátt með frábær atriði. Þá var farið í heita pottinn og leikrit æfð fyrir kvöldið.  Á kvöldvökunni var mikið fjör en það var bara byrjunin því þegar þær voru að drekka kvöldkaffi (kaffihúsastemmning með frábærum veitingum og lifandi tónlist) hófst hermannaleikur. Við fengum nokkra starfsmenn úr Vatnaskógi til liðs við okkur sem eltu þær um allan skóg en tilgangur leiksins er að þær setji sig í spor flóttamanna.

Morguninn eftir fengu þær að sofa örlítið lengur en annars var hann hefðbundinn; morgunmatur, fánahylling, Biblíulestur og brennó. Eftir hádegismat var svo haldið í óvissuferð upp í Vatnaskóg þar sem var frábærlega tekið á móti okkur. Stelpurnar fóru margar á mótorbát, léku sér í íþróttahúsinu og skoðuðu svæðið. Við enduðum svo ferðina á því að fara í sund á Hlöðum.

Eftir kvöldmat var kvöldvaka eins og venjulega en síðan hófst náttfatapartý og endaði langur en frábær dagur á kósýstund upp í sal þar sem var sungið við kertaljós og hlustað á fallega tónlist. Ró var komin á kl.01.

Kær kveðja Erla Björg forstöðukona