Fullur flokkur af hressum og skemmtilegum stúlkum kom upp í Ölver í gær í frábæru veðri. Allar stúlkurnar komu sér fyrir í herbergjunum með sínum vinkonum til að byrja með og að því loknu fengu þær blómkálssúpu í hádegismat. Því næst var komið að kynnisferð um svæði Ölvers, þar fengu stúlkurnar meðal annars að heyra um Dísu tröllskessu sem liggur í fjallinu okkar ásamt því að fara í skemmtilega leiki. Eftir kaffitímann var skipt í brennólið og liðin voru nefnd eftir einhverju girnilegu nammi. Fyrsta brennóumferðin fór strax af stað og má segja að þetta séu einstaklega efnilegar stúlkur í brennó. Í íþróttakeppni var keppt í sippi og jötunfötu og að íþróttakeppni lokinni fengu stúlkurnar steiktan fisk, kartöflur og grænmeti. Á kvöldvöku sá Skógarver um að skemmta hópnum með leikritum og leikjum. Eftirkvöldvöku og kvöldkaffi fengu stúlkurnar óvæntan miða inn um hurðina hjá sér með þraut sem þær þurftu að leysa til að finna sína bænakonu. Við vorum þó ekki tilbúnar til að fara strax í háttinn að þrautinni lokinni og því buðum við öllum upp í sal að horfa á bíómynd og að sjálfsögðu var boðið upp á popp með myndinni. Síðan fóru allar sælar að sofa eftir góðan dag og vöknuðu úthvíldar stúlkur í morgun á bleikum degi og fengu meðal annars bleikan hafragraut í morgunmat. Hægt er að skoða myndir frá fyrsta deginum hér á heimasíðunni.

Þóra Björg Sigurðardóttir, forstöðukona