Mikið hefur drifið á daga okkar hér í Ölver. Á fimmtudaginn fengum við dásamlegt veður og fórum því að sjálfsögðu niður að á eftir hádegismat þar sem stelpurnar nutu sín í því að vaða og busla. Við vorum með kaffitímann úti í góða veðrinu og eftir kaffi var í boði að renna sér niður plastdúk sem settur var í brekkuna. Nánast allar stúlkurnar tóku þátt í vatnssullinu og að því loknu fengu allar að fara í heita pottinn. Á fimmtudaginn sá Fjallaver um kvöldvökuna og voru skemmtiatriðin ekki af verri endanum. Beint eftir kvöldvökuna ákváðum við að halda áfram að njóta góða veðursins og fórum út að grilla sykurpúða. Ekki fannst okkur komið nóg eftir sykurpúðana heldur héldum við líka náttfatapartý þar sem mikið var dansað og farið í ýmsa leiki.
Á föstudeginum fengum við líka mjög gott veður og voru stelpurnar duglegar að vera úti að leika sér. Eftir hádegismat var ævintýraleikur þar sem stúlkurnar fengu að kynnast þyrnirós, norn, gullbrá og galdrakonu. Eftir kaffitímann var haldin hæfileikakeppni úti í laut í góða veðrinu og fengum við að njóta fjölbreyttra hæfileika þessara frábæru stúlkna. Á kvöldvöku sá Lindarver og Hlíðarver um skemmtiatriði og í lok kvöldvöku fengu allar stelpurnar að vita hver hefði verið þeirra leynivinur. Sjaldan höfum við orðið vitni að jafn miklum metnaði í leynivinaleik, en stúlkurnar lögðu sig allar fram við að gleðja sína vinkonu. Kvöldvakan endaði með óvæntum hætti en það ruddust óboðnir gestir inn á kvöldvökuna sem ráku allar stelpurnar út í leik sem var þannig að þær þurftu að leita um skóginn að vísbendingum til þess að komast á endastöð. En það var þó ekki auðvelt að komast á endastöðuna þar sem óprúttnir aðilar voru í skóginum að reyna að ná þeim á leiðinni. Leikurinn endaði að sjálfsögðu þannig að allar komust þær á leiðarenda og fóru glaðar og þreyttar inn í kvöldkaffi.
Í dag er runninn upp veisludagur og því margt skemmtilegt og spennandi í vændum. Ég minni á að hægt er að skoða myndir frá flokknum hér á síðunni.
Bestu kveðjur,
Þóra Björg, forstöðukona