Þá er annar dagur krílaflokksins að kvöldi kominn og stúlkurnar þreyttar og sælar eftir skemmtilegan dag. Dagurinn hófst því að stúlkurnar voru vaktar kl. 8: 30 , flestar sváfu til kl. rúmlega 8 en örfáar voru vaknaðar fyrr. Kl. 9 var morgunmatur þar sem í boði var kornflex, seríós og hafragrautur og ánægjulegt að sjá hversu duglegar þær voru við hafragrautinn. Að morgunmat loknum safnast allar saman við fánastöngina og syngja fánasönginn á meðan fáninn er dreginn að húni. Ég útskýrði fyrir stelpunum að með því værum við að þakka fyrir fallega landið sem Guð hefur gefið okkur. Kl. 10 var svo biblíulestur þar sem stúlkurnar fengu að læra örlítið um Biblíuna, hvað Biblían er, og hvernig við getum noðat hana. Við lærðum að fletta upp í Nýja testamentinu með aðstoð frá foringjum. Minnisversið okkar í dag stendur í Davíðssálmi 119:105 . Eftir biblíulesturinn hófst svo brennókeppnin. Þar sem flestar eru ungar og að koma í fyrsta skipti eru þær að læra að leika þennan skemmtilega leik og gengur það bara nokkuð vel. Eftir brennó var svo farið beint í hádegismat þar sem boðið var upp á hakk og spagettí og grænmeti og tóku þær hraustlega til matar síns. Eftir hádegismat var svo val um að fara í föndur uppi í sal , íleiki úti í laut eða í frjálsan leik úti. Þar sem veðrið lék við okkur í dag , glampandi sól, hlýtt og logn ákváðum við að fara í gönguferð niður að á þar sem stelpurnar fengu að kæla sig örlítið við mikinn fögnuð eftir gönguferðina var svo komið beint í kaffi þar sem boðið var upp á bollur með osti og nýbakaða sjónvarpsköku. Eftir kaffi hélt svo íþróttakeppnin áfram og svo fengu allar að fara smá stund í heita pottinn okkar. Lindarver og Hlíðarver fóru svo í að undirbúa kvöldvöku með aðstoð foringja. Í kvöldmat var svo skyr og brauð með áleggi. Eftir kvöldmat var svo frjáls tími í stutta stund fyrir kvöldvöku þar sem stelpurnar fengu að láta ljós sitt skína. Kvöldvakan endaði svo á að Rebekka foringi sagði okkur söguna um Sakkeus og hlustuðu stelpurnar hver og ein með mikilli athygli. Eftir kvöldhressingu (ávexti) var kominn tími á að fara í háttinn. Bænakonur komu svo inni í herbergin um korter yfir níu og um kl. 10 var komin ró í skálan. Mun betur gekk að sofna í kvöld. Ein sog áður einhver örfá tár sem runnu svona rétt áður en svefninn seig á en ekkert sem ekki var hægt að lækna með smá uppörvunarorðum. Á morgun er svo veisludagurinn sem er síðasti heili dagurinn okkar.
Nú er töluvert komið inn af myndum sem má skoða hér í gegnum síðuna.
Kær kveðja
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, forstöðukona