Það var glæsilegur hópir af stúlkum sem lagði af tað frá Holtaveginum í gærmorgun, greinilega staðráðnar í því að eiga góða daga hér í Ölveri. Sumar voru svolítið litlar í sér enda ekki nema von þar sem margar eru að stíga sín fyrstu skref í Sumarbúðum og einhverjar hafa jafnvel aldrei áður farið svo langt að heiman einsamlar. Ölver tók á móti okkur í blíðskaparveðri og nutum við góða veðursins mest úti við. Við komuna byrjuðum við á að fara inn í matsalinn þar sem stúlkunum var raðað niður í herbergi og passað upp á að allar sem vildu vera saman fengju það. Starfsfólkið aðstoðaði svo stúlkurnar við að koma sér fyrir og að því loknu var farið beint í hádegismat þar sem stúlkurnar fengu blómkálssúpu og brauð með áleggi. Eftir hádegismat var farið í allskonar útileiki og svo í gönguferð um svæðið og aðstæður kannaðar. Í kaffitímanum var svo boðið upp á Ölversbollur og skúffuköku. Ein af hefðunum hér í Ölveri er brennókeppni. Þar sem margar eru að koma í fyrsta skipti var tekin smá brennókennslustund til að undirbúa þær fyrir keppnina sem hefst í dag. Einnig hófst hin æsispennandi íþróttakeppni þar sem keppt er í hinum ýmsu greinum eins og rúsínuspýtingum, brosi, stígvélakasti og fleiru skemmtilegu. Eftir íþróttirnar var svo boðið upp á útileiki fyrir þær sem vildu en aðrar fóru að leika sér á leikvöllunum okkar hér á lóðinni. Helmingur stúlknanna fór að undirbúa kvöldvöku með aðstoð foringja en sú er hefðin hér að herbergin skiptast á um að æfa leikrit og undir búa leiki sem þær sýna svo á kvöldvöku. Í kvöldmatinn var svo boðið upp á ljúffengan fiskrétt sem stúlkurnar borðuðu með góðri lyst. Eftir kvöldmat var svo frjáls tími í stutta stund áður en kvöldvaka í umsjá Skógarvers og Hamravers hófst. Kvöldvakan endaði á því að Ásta foringi sagði okkur dæmisöguna um góða hirðinn. Að kvöldvöku lokinni var boðið upp á ávexti fyrir svefninn. Áður en stúlkurnar fara að sofa koma það sem við köllum bænakonur inn til þeirra í herbergin. Þar sem við erum vel mannaðar fær hvert herbergi 2- 3 bænakonur (foringja og sjálfboðaliða) sem sjá um hvert herbergi. Bænakonurnar lesa fyrir stúlkurnar og biðja með þeim áður en ljósin eru slökkt og farið er að sofa um á milli kl. 21:30 og 22. Eins og gengur gekk misvel að sofna og einhver tár voru felld fyrir svefninn en allar voru sofnaðar fyrir miðnætti eftir viðburðarríkan dag.
Töluvert hefur verið tekið af myndum sem við birtum eins fljótt og okkur er unnt
Bestu kveðjur
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, forstöðukona