Þá fer að koma að lokum þessa krílaflokks. Í öllum sumarbúðum KFUM og K er síðasti dagurinn í hverjum flokk veisludagur. Þá er brugðið aðeins frá hefðbundinni dagskrá, sérstaklega seinni hluta dagsins og fram á kvöldið.
Stúlkurnar voru flestar sofandi þar til vakið var kl. 8:30 og voru því vel út hvíldar. Kl. 9 var morgunmatur og strax á eftir fánhylling. Að því loknu var svo biblíulestur þar sem stúlkurnar fengu að heyra frásöguna af því þegar börnin komu til Jesú. Minnisversið í dag var úr Matteusarguðspjalli 19. kafla 14 vers.
Eftir biblíulestur var svo úrslitakeppni í brennó. Þaðan var svo farið beint í hádegismat, kjötbollur, kartöflumús og grænmeti. Strax eftir hádegi var svo aftur val eins og í gær þar sem hægt var að fara í föndur, útileiki eða frjálsa leiki úti. Kl.13:30 hófst svo nokkurskonar ratleikur. Fimm af foringjunum klæddu sig upp í búninga og földu sig í nágrenni skálans okkar. Hver foringi var með þraut sem stúlkurnar áttu að spreyta sig á. Svo voru þær allar sendar af stað til að leita að foringjunum. Eftir að hafa fundið foringja og leyst þrautina fengu þær merki og þegar þær höfðu safnað fimm merkjum höfðu þær lokið leiknum. Við vorum þakklátar fyrir að akkúrat á meðan ratleikurinn fór fram var þurrt en stuttu áður hafði hellirignt. Eftir kaffi fór svo aftur að rigna en að öðru leiti hefur veðrið verið milt og gott í dag. Eftir ratleikinn var kaffi þar sem boðið var upp á nýbakaðar bollur og norska teköku. Eftir kaffi hófst svo undirbúningur fyrir veisluna. Allar stúlkurnar fengu að fara í heita pottinn og í sturtu og svo tóku foringjarnir við að flétta þær og hjálpa þeim að taka sig til fyrir kvöldið. Á meðan þær biðu eftir að röðin kæmi að þeim pottinn gátu þær föndrað og spilað og dundað sér. Kl 18 hófst svo veislukvöldverður , pizzur og rice krispies kökur í eftirétt. Á meðan stúlkurnar sátu til borðs tók Rebekka foringi fram fiðluna sína og spilaði nokkur lög við mikinn fögnuð. Eftir kvöldmat var svo veislukvöldvakan þar sem foringjarnir létu ljós sitt skína stúlkunum til mikillar gleði.  Kvöldvakan endaði svo á því að Jóna foringi hafði hugleiðingu um bænina. Bænakonur komu svo til þeirra eftir kvöldvöku og fengu allar stúlkurnar spjald með kveðju frá bænakonunum sínum. Um kl. 22 var svo komin alveg ró í skálann.

Kær kveðja

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, forstöðukona