Þá er síðasti dagur flokksins runninn upp.Súlkurnar voru fljótar að sofna eftir líflegan og skemmtilegan dag í gær og sváfu flestar til að ganga 9 í morgun en vakið var kl. 8:30 Eftir morgunmat og fánahyllingu var farið beint í að pakka niður í töskur með aðstoð foringjanna. Á meðan foringjarnir þrifu herbergin höfðu stelpurnar síðasta biblíulesturinn með forstöðukonunni. Í dag var minnisversið úr Jóhannesarguðspjalli 3. kafla 16. vers sem gjarnan er kallað litla biblían. Á hverjum biblíulestri höfum við verið að búa til púsl með myndum sem tengjast minnisversunum og í morgun kom í ljós að púslið er hjarta sem minnir okkur á kærleika Guðs til okkar og að við eigum að sýna öðrum kærleika. Á meðan þetta er skrifað er að hefjast brennókeppni þar sem spilaðir verða tveir leikir. Fyrst þar sem sigurlið brennókeppninnar keppir ásamt foringjum á móti öllum stelpunum í flokknum og síðan allar stelpurnar á móti foringjum sem eru búnir að klæða sig upp og mála sig í framan og vekur alltaf mikla kátínu. Eftir brennóleikina verður hádegismatur og þar sem boðið verður upp á pylsur með öllu. Eftir hádegið verður lokastund þar sem við syngjum saman og afhent verða verðlaun og viðurkenningar fyrir íþróttakeppni, brennókeppni, hegðunarkeppni og ýmislegt fleira sem verið hefur í boði í vikunni. Kl. 15 er svo áætlað að rútan leggi af stað héðan úr Ölveri og ætti að vera komin á Holtaveginn um kl. 16.
Þetta hafa verið góðir dagar og verið gaman að kynnast þessum frábæru stelpum sem eiga vonandi eftir að koma oft aftur hingað í Ölver.
Ég lofaði stelpunum að ég sildi skrifa minnisversin hér á netið svo þær gætu rifjað upp þegar þær kæmu heim svo það fylgir allt með hér fyrir neðan.

Kær kveðja
Helga Vilborg Sigurjónsdóttir, forstöðukona

Minnisvers vikunnar:

Sálm. 119:105
Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum

Matt. 19:14
Leyfið börnunum að koma til mín , varnið þeim eigi því slíkra er himnaríki

Jóh. 3:16
Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf

Morgunvers

Nú er ég klædd og komin á ról
Kristur Jesús veri mitt skjól
Í guðsóttanum gef þú mér
að ganga í dag svo líki þér

Verkin mín Drottinn þóknist þér
þau láttu allvel takast mér
ávaxtasöm sé iðja mín
yfir mér hvíli blessun þín

Einnig höfum við verið að syngja sálm 23 þar sem textinn er sunginn eins og hann stendur skrifaður í biblíunni