Í gær var rugldagur þar sem matartímunum var ruglað ásamt því að foringjarnir voru duglegir að rugla fötunum sínum og rugla eitthvað í stelpunum. Fyrsta brennóumferðin fór vel af stað og verður þessi keppni mjög sterk. Eftir hádegismatinn fóru stelpurnar í Survivor-leik þar sem þær áttu að búa til nafn á hópinn sinn, slagorð og fána. Að því loknu fengu þær teppi, 4 þvottaklemmur, 2 spotta og nesti og áttu að fara út í skóg og búa sér til „skýli“. Skýlin voru mjög vel búin hjá stúlkunum og margar skemmtilegar hugmyndir komu upp. Þeim þótti svo gaman í leiknum og skýlunum sínum að sumar stúlkurnar þurfti nánast að draga inn í kaffi. Þegar allar stúlkurnar höfðu fengið nóg af pizzasnúðum og súkkulaðiköku í kaffinu var síðan haldin hárgreiðslukeppni þar sem hver hárgreiðslan á fætur annarri leit dagsins ljós. Síðan var í boði að fara í heita pottinn eða vera í frjálsum tíma. Á kvöldvöku sá Hlíðarver um skemmtiatriði þar sem þær sýndu 3 leikrit og voru með einn leik. Í lok kvöldvöku drógu stúlkurnar síðan leynivinkonu sem þær eiga að koma eitthvað skemmtilega á óvart næstu 2 daga. Við erum í skýjunum hér með þennan flotta hóp og hlökkum mikið til næstu daga.
Þóra Björg, forstöðukona