Nú fer að síga á seinni hlutann hjá okkur hér í Ölveri. Við höfum brallað mikið skemmtilegt og haft ótrúlega gaman. Í gær voru úrslitaleikirnir í brennó sem voru æsispennandi. Eftir hádegismat var gönguferð í berjamó þar sem stúlkurnar tíndu ber sem verða notuð út á skyrið í dag. Sumar fengu ekki nóg af göngunni og fengu því að klifra aðeins upp í fjall í leiðinni. Eftir dýrindis kaffi var síðan haldin hæfileikakeppni þar sem hæfileikar stúlknanna fengu aldeilis að njóta sín. Stúlkurnar voru mjög ánægðar með karrý-fiskinn sem var í kvöldmat og borðuðu vel. Á kvöldvöku sá Skógarver um skemmtiatriði og tókst það mjög vel hjá þeim. Eftir kvöldkaffið fóru stúlkurnar síðan að hátta, bursta og pissa og inn svo í bænaherbergi. Þegar bænakonurnar komu inn kom þó fljótlega í ljós að það var eitthvað óvænt í vændum en þá var haldið skemmtilegt náttfatapartý þar sem mikið var um dans, leiki og leikrit… og að sjálfsögðu frostpinna. Á morgun fær vinningsliðið í brennó að keppa við foringjana og einnig fær allur flokkurinn að spreyta sig. Áður en stúlkurnar fara heim verður síðan verðlaunaafhending þar sem veitt verða verðlaun fyrir hinar ýmsu þrautir og keppnir. Rútan leggur svo af stað í bæinn kl.15:00 og kemur á Holtaveg 28 um kl.16:00.
Við starfsfólkið hér í Ölveri þökkum kærlega fyrir frábæra viku og þessar æðislegu stelpur og biðjum Guð að blessa þær á öllum vegum þeirra.
Bestu kveðjur,
Þóra Björg, forstöðukona