Hæ hó og jibbíjei! Það voru veisluhöld frá morgni og fram á nótt hjá okkur í Listaflokki. Allar stúlkurnar skreyttu muffins sem þær borðuðu svo með kaffinu og þá fengu þær líka marengstertu með öllu tilheyrandi. Á biblíulestrinum ræddum við um náunga okkar og um að allt sem við viljum að aðrir geri okkur skulum við þeim gera. Við ræddum heilmikið um góðverk hvernig þau hljóma, hvernig þau líta út og hvernig manni líður þegar maður gerir góðverk eða þegar aðrir eru góðir við okkur. Í hádeginu voru pizzur og eftir hádegi var farið út í Ölversleikana. Þar er keppt í ýmsum skrítnum greinum eins og stígvélakassti. Eftir kaffi var glæsileg hæfileikakeppni þar sem stúlkurnar sýndu dansa, töfrabrögð, myndir, sungu og margt fleirra. Í kvöldmatnum grilluðum við pylsur og sykurpúða og borðuðum úti því veðrið var svo fallegt. Kvöldvakan var fjörug og skemmtileg að vanda, mikið sungið og sprellað. Dagurinn var svo toppaður með náttfarapartýi og það var sko partý í lagi. Sprell, dans, skemmtiatriði, söngur og íspinnar. Allar fóru þreyttar og sælar að sofa og voru mjög fljóta að sofna.