Veisludagur var viðburðarríkur og skemmtilegur. Brennókeppnin er æsispennandi og það verður fjör að sjá hvernig það fer. Björgvin Franz Gíslason kom í heimsókn eftir að við höfðum borðað grjónagraut. Hann fór með okkur í allskonar leiklistarleiki og kenndi okkur svo nokkur töfrabrögð – og sýndi okkur töfrabrögð sem voru mjög flott. Eftir kaffi var gert kartöfluþrykk, stúlkurnar eru algjörir listamenn og njóta sín vel í þessu. Svo var farið í pottinn og í sturtu og allir gerðu sig fína fyrir veisluna. Veislan hófst með veisluborðhaldi og endaði á veislukvöldvöku þar sem foringjar fóru á kostum í að skemmta veislugestum. Það var mikið sungið, hlustað á sögu um Jesú og borðað popp! Dvalargestir voru svolítið sifjaðir þegar bænakonurnar fóru inní herbegin og lásu og báðu kvöldbænirnar með þeim. Í dag var svo loka leikirnir í brennókeppninni. Búið er að pakka öllu og verið er að borða tómatsúpu með pasta og nýbökuðum rúmstykkjum. Á eftir er stutt kveðjustund áður en haldið er heim á leið. Við starfsfólkið erum þakklátar fyrir jákvæðan og skemmtilegan hóp og óskum þeim öllum Guðs blessunar.