Það voru 44 glaðar og eftirvæntingarfullar stúlkur sem mættu í Ölver í dag.  Sumar að koma í fyrsta sinn en aðrar að endurnýja kynnin við staðinn en allar voru þær jafn spenntar yfir því að vera komnar.

Byrjuðum við á að safnast saman inni í matsal, þar sem starfsfólkið kynnti sig og farið var yfir reglur.  Næsta var að skipta stúlkunum niður á herbergi og gekk það mjög vel.  Eftir að allir höfðu komið sér fyrir var hádegismatur, sem að þessu sinni var skyr og brauð.  Eftir mat var farið í gönguferð um svæðið og fengu stúlkurnar líka smá tíma til að kynnast hvor annarri, áður en við fengum dýrindis súkkulaðiköku og kanilsnúða í kaffinu.

Eftir kaffið var farið út í íþróttahús, þar sem farið var yfir brennóreglurnar og fyrstu brennóleikirnir spilaðir.  Liðin að þessu sinni heita eftir landsliðum sem keppa á EM í fótbolta þessa dagana.

Í kvöldmatin voru fiskibollur með karrýsósu og hrísgrjónum sem stúlkurnar borðuðu með bestu list.  Eftir kvöldmatinn var svo kvöldvaka í boði Fjallavers, mikið sungið og auk þess fengu stúlkurnar að heyra aðeins um sögu Ölvers og um Kristrúnu sem stofnaði hér sumarbúðirnar.  Stúlkurnar tóku vel þátt í kvöldvökunni og hlustuðu vel.  Þegar kvöldvöku lauk var farið í ratleik það sem stúlkurnar fundu bænakonurnar sínar og var mikið fjör.

Eftir að öll herbergi höfðu fundið sína bænakonu og fengið sér smá ávexti, hófst undirbúningur fyrir nóttina.  Sumar áttu mjög auðvelt með að sofna en hjá öðrum var spennan enn æðandi í blóðinu og tók það aðeins lengri tíma að komast til Óla lokbrá og eflaust verða einhverjar örlítið þreyttar í morgunsárið.

Hlökkum til fleiri daga með þessum skemmtilegu stelpum sem eru hér í fyrsta Ævintýraflokki sumarsins.